Bæjarráð Mosfellsbæjar samþykkti á fundi sínum í gær tillögu Sveins Óskars Sigurðssonar, bæjarfulltrúa Miðsflokksins, um að könnuð verði staðsetning fyrir þjóðarhöll - þjóðarleikvang í Mosfellsbæ fyrir handbolta og körfubolta.
Samkvæmt tillögunni yrði um að ræða þjóðarhöll sem tæki allt að 6.000 áhorfendur í sæti.
„Í ljósi umtalsverðra umferðartafa og fyrirsjáanlegra umferðartafa með tilkomu borgarlínu, er mikilvægt að koma Mosfellsbæ á kortið sem góðum stað fyrir Þjóðarleikvang-Þjóðarhöll,“ segir meðal annars í greinagerð Sveins vegna málsins.
Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handbolta karla, sagði í samtali við mbl.is eftir sigur gegn Austurríki á dögunum að hann væri kjaftstopp yfir aðgerðaleysi stjórnvalda varðandi þjóðarhöll.
Ekkert íþróttahús á Íslandi uppfyllir þau skilyrði sem alþjóðasamböndin í körfuknattleik og handknattleik setja fyrir leiki í undankeppnum stórmóta.
„Ég hef upplifað ýmislegt en ég er að verða kjaftstopp yfir þessum aulagangi. Það er aulagangur að geta ekki tekið á þessu að myndarskap. Það verða menn úr öllum flokkum að sameinast um þetta ásamt borgarstjóra Reykjavíkur til að koma þessu af stað,“ sagði Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari.