Norska hafrannsóknaskipið Nansen Explorer hefur vakið nokkra athygli í Reykjavík síðustu daga þar sem það liggur við bryggju. Skipið er hins vegar ekki lengur í notkun sem rannsóknaskip heldur hefur því verið breytt í lúksussnekkja fyrir efnameiri farþega.
Nansen Explorer var smíðað 1983 af Valmetin Laivateollisuus O/Y í Åbo í Finnlandi fyrir Sovétríkin og er 71,6 metra á lengd og 12,8 metra að breidd. Það gekk í gegnum nokkur eignaskipti í Rússlandi frá því að Sovétríkin féllu en var keypt af landsstjóraembættinu á Svalbarða 2003 og síðan af bresku sjómælingafyrirtæki 2014.
Árið 2020 var skipið síðan keypt af ferðaþjónustufyrirtækinu Nansen Polar Expeditions (sem dregur nafn sitt frá norska landkönnuðinum Fridtjof Nansen). Umtalsverðar breytingar voru gerðar á skipinu sem áður gat tekið 60 farþega og getur það nú aðeins hýst 12 gesti í sjö svítum. Um borð er bar, veitingahús, líkamsrækt og þyrlupallur, svo fátt sé nefnt.
Skipið er hannað til að takast á við hafís og getur því farið með ferðalanga inn á mest krefjandi svæðin á Norðurslóðum og í kringum Suðurskautið.
Gæti rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson fengið endurnýjaða lífdaga með sambærilegum hætti Hafrannsóknastofnun til tekjuöflunar? „Þetta er áhugaverð spurning,“ svarar Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunnar, og hlær. „Þetta er ekki versta hugmynd sem ég hef heyrt.“
Hann upplýsir að þegar hafi fjármálaráðherra verið veitt heimild til að selja skipið þegar nýtt kemur og því fátt sem bendir til að stofnunin noti það frekar. Það er hins vegar mögulegt að áhugasamur kaupandi gæti nýtt skipið í ferðaþjónustu en Bjarni Sæmundsson er bæði 13 árum eldri en Nansen Explorer og töluvert minni, aðeins 55,9 metra að lengd og 10,6 metra að breidd. Töluverðar endurbætur þyrftu að vera gerðar á skipinu, að mati Þorsteins sem segir klefana mjög litla.
Eitt er þó ljóst og það er að af myndum að dæma er Nansen Explorer hið glæsilegasta og líklega erfitt að finna betri ferðamáta þegar Norðurslóða-ævintýri eru annars vegar.
Verðmiðinn er ekki fyrir alla og má áætla að viku ferð mun kosta á bilinu 700 og 1.145 þúsund á hvern farþega.