Næturlífsstjóri óskast í miðbæinn

Mikill hávaði og sóðaskapur fylgir skemmtanalífinu í miðbænum og íbúar …
Mikill hávaði og sóðaskapur fylgir skemmtanalífinu í miðbænum og íbúar langþreyttir á ástandinu. mbl.is/Ari

Næturlíf í Reykjavíkurborg hefur alltaf þótt með eindæmum fjörugt og hefur litla borgin okkar í norðri dregið að sér margan gestinn sem vill upplifa hömlulaust djamm fram á nætur. Á litlu svæði í miðbænum eru skemmtistaðirnir úti um allt og glaumurinn frá Laugavegi heyrist upp að Hallgrímskirkju og jafnvel lengra. Eins skemmtilegt og það er að lyfta glasi í góðra vina hópi fylgir djamminu mikill hávaði og þegar gengið er um miðborgina snemma morguns um helgar má sjá rusl og sóðaskap sem djammararnir skilja eftir sig í óminni fjörsins kvöldið áður.

En miðbærinn er ekki bara partístaður. Þar búa líka fjölskyldur, eldri borgarar, einstaklingar og alls konar fólk. Nú finnst mörgum íbúum í hverfinu lætin og sóðaskapurinn fara yfir öll mörk, en eftir að samkomubanni létti hefur ástandið verið með versta móti og læti og öskur fram eftir nóttu. Nú gætu sumir sagt að partístand fylgi alltaf miðborgum og eitthvað er til í því, en þó er leitun að öðrum eins hamagangi og í miðbæ Reykjavíkur.

Kolbrún Baldursdóttir borgarfulltrúi.
Kolbrún Baldursdóttir borgarfulltrúi. mbl.is/Eggert

„Ég vil benda á að ástandið hér í miðbænum er alveg á skjön við þróunina í helstu borgum Vesturlanda, þar sem gefist hefur verið upp á því að hrúga öllum næturklúbbunum saman í miðborginni,“ segir Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins.

„Síðan er næturlífið í miðbænum í hrópandi mótsögn við áherslu borgarinnar á vistvænt og heilsusamlegt umhverfi, sem og hljóðlátan ferðamáta og önnur græn markmið. Þetta er blönduð byggð og í miðbænum býr vinnandi fólk sem þarf á svefni sínum og hvíld að halda.“

Í Lögreglusamþykkt fyrir Reykjavíkurborg frá 2008 segir í 6. gr.: „Lögreglan getur vísað þeim mönnum í burtu af almannafæri sem með háttsemi sinni valda vegfarendum eða íbúum í nágrenninu ónæði. Sama á við um þá sem valda óspektum, hættu eða hneykslan á almannafæri sökum ölvunar eða af öðrum ástæðum.“ Kolbrún segir að í nóvember 2018 hafi Flokkur fólksins lagt fram tillögu um að borgin tryggði eftirlit með framkvæmd reglugerðar frá árinu 2008 um hávaðamengun í borginni. Hún segir að það hafi ekki verið gert.

„Það er ekkert eðlilegt að næturklúbbar séu opnir fram á morgun í blandaðri byggð og það er mikilvægt að finna lausnir á þessu ófremdarástandi,“ segir Kolbrún sem segist þó alls ekki á móti skemmtistöðunum. „Ég skemmti mér í Hollywood, Klúbbnum og Sigtúni í eina tíð, en það voru allt staðir sem voru í jaðri byggðarinnar sem var þá.“

Hún leggur til að skipta borginni í hljóðsvæði þar sem hávaðasvæðin yrðu fjærst íbúabyggð og talar til dæmis um Granda eða önnur iðnaðarhverfi sem mögulega kosti fyrir næturklúbba, en stöðum í miðbænum yrði þá lokað fyrr. Þá væri hægt að hafa næturstrætó til að skila fólki aftur til síns heima.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert