Meira líf er óðum að færast yfir Keflavíkurflugvöll eftir Covid-19-faraldurinn og flugferðum um völlinn fjölgar stöðugt. Búast má við að 24 flugfélög muni fljúga um völlinn í sumar, tveimur fleiri en í fyrra. Síðustu vikur hefur vel mátt sjá að Íslendingar hafa verið ferðaþyrstir eftir að draga fór úr umsvifum Covid-19. Þannig fylltust langtímabílastæðin við Leifsstöð um páskana og margir framlengdu fríið fram yfir sumardaginn fyrsta.
Eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær flaug Play sitt fyrsta flug til Bandaríkjanna sl. miðvikudag, þegar flogið var til Baltimore/Washington International-flugvallarins. Mun Play fljúga daglega til flugvallarins en áfangastöðum félagsins hefur farið fjölgandi síðan það fór fyrst í loftið. Kemur Play til með að bæta við fleiri áfangastöðum í Bandaríkjunum á næstu vikum.
„Þetta er mikilvægur dagur fyrir Isavia og okkur sem falið er að starfrækja Keflavíkurflugvöll. Við fögnum nýjum gestum og tökum vel á móti þeim. Þessi nýja flugtenging Play-flugfélagsins milli Íslands og Bandaríkjanna er enn ein staðfestingin á því að áform um stækkun og endurbætur á Keflavíkurflugvelli eru skynsamleg og byggð á vönduðum áætlunum,“ sagði Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, við athöfn í Leifsstöð sl. miðvikudag áður en vél Play flaug vestur um haf.
Við sama tækifæri sagði Birgir Jónsson, forstjóri Play, viðtökur við Bandaríkjafluginu „ótrúlega góðar“.
„Þeir sem standa utan Play munu seint átta sig á hversu flókið og erfitt það er að koma á flugáætlun til Bandaríkjanna,“ sagði Birgir m.a.