Stefnt er að því að hífa flugvélina TF-ABB upp úr Þingvallavatni í dag. Undirbúningur vegna verkefnisins hefur staðið yfir frá því ís hvarf af vatninu en aðgerðir í dag hefjast um hádegi.
Flugvélin, sem fórst í byrjun febrúar með fjóra karlmenn um borð, liggur á 48 metra dýpi í Ölfusvatnsvík.
Uppsetning vinnubúða vegna aðgerðanna hófst í gær en setja þurfti upp tjaldbúðir með aðstöðu fyrir björgunarmenn og öryggisbúnað vegna köfunar.
Gert er ráð fyrir því að 30 manns taki þátt í flókinni aðgerðinni, þar af 12 kafarar.
„Við sendum tvo kafara niður að flugvélinni sem liggur á 48 metrum og þeir festa stroffur í vélina. Því næst verður hún hífð upp á töluvert minna dýpi og tryggð fyrir flutning. Þá verður siglt með vélina nær landi, um 1,5 kílómetra, þar sem við vinnum meira í henni,“ segir Lárus Kazmi, stjórnandi köfunarhóps sérsveitar ríkislögreglustjóra, í samtali við Morgunbaðið í gær.