„Átta nýir leikskólar opna á árinu“

Skúli segir að næstu leikskólar sem opna séu við Nauthólsveg …
Skúli segir að næstu leikskólar sem opna séu við Nauthólsveg sem áætlað er að opni í júní og síðan hefji þrír leikskólar starfsemi í ágúst. Ljósmynd/Colourbox

Á miðvikudaginn birtist grein á mbl.is þar sem Hildur Steinþórsdóttir sagði að borgaryfirvöld væru farin að bjóða barnafólki pláss á leikskóla sem væru ekki byggðir og sagði samskipti sín við borgina ekki hafa verið góð. Núna fjórum mánuðum eftir að leikskólavist dóttur hennar átti að hefjast sé ekki enn búið að byggja leikskólann.

Skúli Helgason, formaður frístunda- og skólaráðs borgarinnar, segir ýmislegt í greininni byggja á misskilningi, og bendir á að það sé reglan að innritað sé í leikskóla með nokkurra mánaða fyrirvara og gildi þá einu hvort um pláss á starfandi eða nýjum leikskóla sé að ræða.

Fjölgun barna eftir faraldurinn

Hann segir að þörfin á síðustu tveimur árum hafi aukist mikið umfram fyrri áætlanir því fæðingarárgangurinn 2021 hafi verið miklu stærri en þeir sem á undan komu og muni sú fjölgun halda áfram á árinu 2022.

Brugðist hafi verið við því með því að fjölga leikskólaplássum enn meira en áður stóð til, svo standa mætti við fyrirheit um að bjóða börnum allt niður í 12 mánaða í leikskóla. Í byrjun mars á þessu ári var samþykkt á fundi borgarráðs að fjölga leikskólarýmum um 1.680 næstu fjögur árin, og er gert ráð fyrir um 850 nýjum plássum á þessu ári.

„Við erum að opna átta nýja leikskóla á þessu ári. Tveir nýir leikskólar eru nú þegar teknir til starfa, annar á horni Eggertsgötu og Njarðargötu sem opnaði í febrúar og hinn í Bríetartúni sem opnaði núna í byrjun apríl, en sá leikskóli er sérútbúinn sem ungbarnaleikskóli.“

Skúli segir að næstu leikskólar sem opna séu við Nauthólsveg sem áætlað er að opni í júní og síðan hefji þrír leikskólar starfsemi í ágúst. „Stór leikskóli opnar við Kleppsveg með 120 plássum, annar í Vogabyggð með 100 plássum auk leikskóla við Ármúla með 60 plássum sem rekinn verður með leikskólanum Múlaborg sem er á næstu lóð.“ Á haustmánuðum munu svo leikskólar opna við Safamýri og Barónsstíg við Vörðuskóla.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert