„Veðrið er gott og við erum bjartsýnir að þetta eigi eftir að ganga vel,“ segir Rúnar Steingrímsson, lögreglufulltrúi af Suðurlandi, í samtali við mbl.is. Aðgerðir við að hífa vélina sem fórst í Þingvallavatni í febrúar hefjast um hádegið.
Rúnar segir þrátt fyrir bjartsýni og gott veður geti alltaf eitthvað komið upp á.
Alls munu 55 manns taka þátt í aðgerðunum í dag en flugvélin, sem fórst í byrjun febrúar með fjóra karlmenn um borð, liggur á 48 metra dýpi í Ölfusvatnsvík.
Lögreglan á Suðurlandi, starfsfólk ríkislögreglustjóra, tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og tölvudeild, Brunavarnir Árnessýslu, Landsbjörg, Landhelgisgæslan, og fimm björgunarsveitir hafa komið að undirbúningi þessa flóknu aðgerða.
Rúnar útskýrir að um hádegi verði tveir kafarar sendir að vélinni sem liggur á 48 metrum og þeir festa stroffur í hana. Þaðan verði hún hífð á minna dýpi og tryggð fyrir flutning og allur rafeindabúnaður tekinn úr henni.
Að því loknu verður vélin síðan hífð alla leið upp.