Búið að lyfta vélinni upp af botninum

Mikill viðbúnaður er við Þingvallavatn.
Mikill viðbúnaður er við Þingvallavatn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Búið er að lyfta flugvélinni TF-ABB upp af botni Þingvallavatns og hangir hún nú neðan í pramma. Þannig verður siglt með hana að landi og mun siglingin taka um 40 mínútur.

Stórum krana hefur verið komið fyrir í landi sem mun hífa vélina upp úr vatninu. Áður en það er gert eru rafeindabúnaður og aðrir lausamunir fjarlægðir úr vélinni, að því er kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni.

Eftir að vélin er komin á land verður farið yfir hana. Hún verður rannsökuð af rannsóknarnefnd samgönguslysa og lögreglu áður en hún verður sett á bíl og flutt í flugskýli þar sem ítarleg rannsókn mun fara fram.

„Allt gengur framar vonum og vélin er á leiðinni að landi. Búið er að stilla kranann af og síðasti djúpkafarinn var að koma í land og er að fara í tékk hjá köfunarlækni,“ sagði Rúnar Steingrímsson, lögreglufulltrúi hjá embætti lögreglustjóra á Suðurlandi, við blaðamann mbl.is á staðnum.

Nánar um aðgerðirnar:

Aðgerðirnar, sem hófust í morgun, fólust í því að öðrum pramma var siglt út að vélinni. Notaður var „hanafótur“ sem var látinn síga niður og hann festur við vélina. Hann var síðan notaður til að lyfta henni af botni vatnsins og undir prammann.

Þar verður flugvélin mynduð áður er siglt verður með hana löturhægt að inntakinu að Steingrímsstöðvarvirkjun, en sá staður var valin til verksins vegna góðar aðkomu að vatninu.

Vélin verður flutt um 1.800 metra leið sem mun taka um 40 mínútur að víkinni þar sem inntakið er. Þetta er gert til að flugvélin haldist í því ásigkomulagi sem hún var í og ekki verði átt við hana. Botn vatnsins er síðan myndaður til þess að ekkert týnist úr vélinni.

Þegar í víkina er komið mun stór krani taka á móti henni og halda henni í um fimm metra dýpi þar sem hún verður aftur mynduð að innan sem utan af Delta-deild (köfunardeild) sérsveitar ríkislögreglustjóra.

Eftir það er rafeindabúnaður fjarlægður úr vélinni og hún síðar hífð upp úr vatninu og færð á land. Þar er hún rannsökuð af rannsóknarnefnd samgönguslysa sem mun svo pakka vélinni saman og ferja hana í heilu lagi til Reykjavíkur í skýli nefndarinnar til frekari rannsóknar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert