Ekkert sem gat rökstutt að þing kæmi fyrr saman

Katrín Jakobsdóttir taldi ekki þörf á því að þing kæmi …
Katrín Jakobsdóttir taldi ekki þörf á því að þing kæmi fyrr saman. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra taldi ekki þörf á því að kalla þing fyrr saman til að ræða söluna á Íslandsbanka. Að hennar mati hafa engir atburðir átt sér stað sem hefðu rökstutt það.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar kölluðu eftir því að Alþingi kæmi saman í þessari viku til að ræða sölu á hlut ríkisins í bankanum. Við því var hins vegar ekki orðið. Útboðsferlið hefur hlotið mikla gagnrýni og einhverjir vilja meina að lög hafi jafnvel verið brotin.

Í samtali við mbl.is segir Katrín að í raun hafi ekki verið nein þörf á því að þing kæmi saman degi fyrr en ella, en samkvæmt áætlun mun þing koma saman á mánudag.

„Það voru engir atburðir í þessu sem ég taldi rökstyðja það að þing kæmi saman einhverjum degi fyrr,“ segir Katrín.

„Röksemdin með því var að hér væri búið að leggja niður Bankasýsluna, en augljóslega er það ekki gert nema með frumvarpi á Alþingi. Það er ekki gert með einu pennastriki eins og gefið hefur verið til kynna.“

Katrín segist eiga eftir að heyra í forseta þingsins, en það verði væntanlega skipulögð umræða um málið á mánudaginn.

Liggur ekki fyrir hvort heimildir skorti

Þá hafa þingmenn stjórnarandstöðunnar kallað eftir því að sérstök rannsóknarnefnd Alþingis verði skipuð til að fara í saumana á útboði Bankasýslu ríkisins á hlutabréfum í Íslandsbanka.

Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði í viðtali við Dagmál Morgunblaðsins að skera þyrfti úr um hvort spilling hafi viðgengist í útboðinu. Hún sagði ekki ljóst hvort spilling eða klúður hefði átt sér stað, en annað hvort væri það; hugsanlega hvoru tveggja.

Katrín segir það hins vegar hafa komið fram í greinagerð með frumvarpi til laga um rannsóknarnefndir Alþingis að ekki sé gert ráð fyrir því að slík nefnd sé skipuð nema önnur úrræði hafi verið tæmd.

„Í þessu tilviki þá liggur það beinast við að Ríkisendurskoðandi, sem er stofnun Alþingis og ber að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu, að hann ljúki sinni skoðun áður en tekin er afstaða til þess hvort það sé þörf á því að skipa sérstaka rannsóknarnefnd og það hangir þá á því hvort einhverjar heimildir skortir til dæmis, fyrir Ríkisendurskoðun. Það liggur ekkert fyrir um það.

Síðan er Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands að rannsaka það sem undir þau heyra og þau hafa ríkar heimildir til að fara yfir ákveðna þætti, sem þau eru að skoða.“

Gerir ráð fyrir að úttektum ljúki áður en þing fer heim

Það þarf þá að klárast áður en það er tekin ákvörðun um hvort sérstök rannsóknarnefnd verði skipuð?

„Mér finnst það eðlilegt og vandað ferli. Ef við bara rifjum upp lögin um rannsóknarnefndir Alþingis, þá gera þau ráð fyrir því að önnur úrræði séu þá tæmd eða fullreynd og í ljós hafi til að mynda komið að það séu ekki nægar heimildir eða eitthvað slíkt.“

Ríkisendurskoðun hefur gefið út að gera megi ráð fyrir því að vinnu við úttektina verði lokið í júní. Ferlið geti hins vegar tekið lengri eða skemmri tíma.

Katrín hefur ekki áhyggjur af því að rannsóknin tefjist.

„Samkvæmt því sem ég hef heyrt er ekki ástæða til að ætla annað en að báðar þessar stofnanir hafi lokið sínum úttektum áður en þing fer heim.“

Fjármálaráðherra beri ábyrgð á málinu og stofnunni 

Hópur mótmælenda kom saman fyrir utan Ráðherrabústaðinn í morgun þar sem ríkisstjórnarfundur fór fram. Kröfðust mótmælendur afsagnar Bjarna Benedikssonar fjármálaráðherra. Bankasölumálið væri kornið sem fyllti mælinn. Þá fóru fram mótmæli á Austurvelli um síðustu helgi og fleiri mótmæli hafa verið skiplögð. Ljóst er því að málið hefur vakið töluverða reiði meðal almennings.

Aðspurð hvort hún óttist að þessi reiði kunni að magnast upp í samfélaginu, segir Katrín að gagnrýnin sé skiljanleg og það sé mikilvægt að rannsaka málið til hlítar.

„Það er alveg ljóst að ríkisstjórnin ber auðvitað pólitíska ábyrgð í þessu máli. Það er okkar hlutverk núna að standa undir þeirri ábyrgð. Það verðum við að gera meðal annars með því að rannsaka þetta til hlítar og endurskoða þetta fyrirkomulag sem hefur verið. Þar sem ætlunin er að sé sjálfstæð stofnun sem fari með framkvæmd laganna og annað slíkt, segir Katrín.

Skerpa þurfi á því að um meðferð ríkiseigna sé verið að ræða.

„í slíkum tilfellum er til dæmis ekki hægt að hafa þau vinnubrögð að ætla sér ekki einu sinni að birta lista yfir kaupendur hluta í þeirri eign eins og kom fram hjá Bankasýslunni. Ríkisstjórnin ber því vissulega pólitíska ábyrgð og fjármálaráðherra ber svo auðvitað ábyrgð á málinu sjálfu og svo stofnuninni.

Þessi gagnrýni sem ég heyri og held að sé mjög skiljanleg, það skiptir máli að við rannsökum þetta til hlítar og við fáum það að hreint hvað þarf að gera og hvort eitthvað hafi farið úrskeiðis og þá hvað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert