Erlent verkafólk oft í verri stöðu

Skýrsla um kort­lagn­ingu á fjölda ein­stak­linga sem eru bú­sett­ir í …
Skýrsla um kort­lagn­ingu á fjölda ein­stak­linga sem eru bú­sett­ir í at­vinnu­hús­næði á höfuðborg­ar­svæðinu var kynnt í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir að erlent verkafólk hér á landi sé oft í verri stöðu en Íslendingar þegar kemur að því að hafa öruggt húsnæði.

„Það má alveg gefa sér það, það hefur ekki þessar samfélagslegu tengingar eins og Íslendingar hafa. Þau eru oft tímabundið hérna og oft ekki með ættingja eða vini,“ segir Drífa í samtali við mbl.is.

Skýrsla um kortlagningu á búsetu í atvinnuhúsnæði var kynnt á blaðamannafundi í dag en hún var unnin af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og Alþýðusambandi Íslands.

„Við vitum öll hvernig kaupin gerast hérna á Íslandi, bara lætur orð út spyrjast ef einhver er tilbúinn til að aðstoða einhvern, þannig það kemur heldur ekkert á óvart að svona húsnæði spyrjist út á meðal fólks af erlendum uppruna og það kemur í ljós að margir hafa fengið húsnæði í gegnum upplýsingar frá samlöndum sínum.“

Áhersla á að vinna traust íbúa

Drífa segir að kortlagningin hafi gengið vel.

„Við höfum mjög mikla reynslu af því að fara inn í fyrirtæki og tala við vinnandi fólk með fullt af eftirlitsfulltrúum þannig við lánuðum þá þekkingu inn í þetta,“ segir hún.

„Mér sýnist þetta hafa verið gert alveg afskaplega vel með því að fara ekki þarna inn og ætla að henda út fólki ef eitthvað væri í ólagi heldur var áhersla lögð á að vinna traust til þess að fá upplýsingar.

Við fengum mjög verðmætar upplýsingar um stöðu fólks á vinnumarkaði og kannski ekki síður hvað fólk vildi vita af því að mjög margir í þessari stöðu vildu fá upplýsingar um réttindi sín á vinnumarkaði. Það var mjög verðmætt fyrir okkur að komast í tengsl við þetta fólk.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert