Læra þurfi af brunanum á Bræðraborgarstíg

Regína Valdimarsdóttir, teymisstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, á blaðamannafundinum í dag.
Regína Valdimarsdóttir, teymisstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, á blaðamannafundinum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er nauðsynlegt að fara í þetta verkefni og við þurfum að draga lærdóm af því sem gerðist á Bræðraborgarstíg og koma í veg fyrir að slíkur harmleikur endurtaki sig,“ segir Regína Valdimarsdóttir, teymisstjóri HMS.

Skýrsla um kortlagningu á búsetu í atvinnuhúsnæði var kynnt á blaðamannafundi í dag sem unnin var af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS), slökkviliði höfuðborgarsvæðisins (SHS) og Alþýðusambandi Íslands.

Um er að ræða eitt verkefni af þrettán tillögum sem voru lagðar fram í kjölfar brunans á Bræðraborgarstíg árið 2020.

„Þetta er ekki í fyrsta skipti sem kortlagning á búsetu í atvinnuhúsnæði hefur átt sér stað en farið var í miklu ítarlegri kortlagningu núna en áður,“ segir Regína í samtali við mbl.is.

Ekki vandamál sem þurfi að eyða

Við kortlagninguna var leitast við að fanga félagslegar aðstæður íbúa sem og ástand brunavarna. Ráðnir voru átta eftirlitsfulltrúar sem töluðu samtals níu tungumál með það að markmiði að ná til margra þjóðfélagshópa sem búa í atvinnuhúsnæði.

„Við hönnuðum líka staðlaðan viðtalsramma þar sem reynt var að safna upplýsingum um þjóðerni, stöðu á vinnumarkaði og ástæðuna fyrir vali á húsnæði,“ segir Regína.

„Í grunninn á ekki að vera búseta í atvinnuhúsnæði en það er þó staðreyndin og það sem við þurfum að gera er að tryggja öryggi þessa fólks og brunavarnir þurfa að vera í lagi.“

Þá sé framboðsskortur á húsnæði hér á landi og því ekki hægt að segja að þetta sé vandamál sem þurfi að eyða.

„Tók ansi mikið á“

Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri SHS, segir í samtali við mbl.is. að það hafi verið erfitt að fara í verkefnið eftir brunann á Bræðraborgarstíg.

„Þetta náttúrulega tók ansi mikið á en kannski líka ákveðinn léttir að geta fylgt því eftir með svona verkefni sem við vitum þá að leiði til einhvers góðs fyrir þessa búsetu,“ segir hann.

„Það þarf að viðurkenna þá staðreynd að þú getir búið í atvinnuhúsnæði og breyta löggjöfinni þannig að það sé heimilt og menn geti fylgt því eftir og gert kröfu um brunaöryggi.“

Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri SHS, á blaðamannafundinum í dag.
Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri SHS, á blaðamannafundinum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert