Lögregluþjónar fjarlægðu í dag listaverkið Farangursheimild sem stóð fyrir utan Nýlistasafnið í Marshallhúsinu í Reykjavík.
Hluti af verkinu var bronsstyttan Fyrsta hvíta móðirin í Ameríku eftir Ásmund Sveinsson sem sýnir Guðríði Þorbjarnardóttur.
Greint var frá því á dögunum að styttu Ásmundar hefði verið stolið af stöpli á Laugarbrekku á Snæfellsnesi.
Jón Sigurður Ólason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vesturlandi, sagði í samtali við mbl.is að styttan hefði verið fjarlægð að hans ósk og hafi verið flutt vestur á land í kjölfarið.
„Þetta er með sérstakari málum sem maður man eftir. Styttan er inni í einhverri rakettu og nú þarf að losa hana þaðan og meta hvort hún er skemmd. Hún fer því ekki alveg strax á sinn stað aftur,“ sagði Jón Sigurður yfirlögregluþjónn.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu á morgun.