Vestmannaeyjabær ætlar að styrkja Björgunarfélag Vestmannaeyja um 35 milljónir króna vegna kaupa félagsins á nýju björgunarskipi. Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri segir að málið sé bæjarfélaginu mikilvægt, en hún undirritaði samkomulag um styrkinn ásamt þeim Arnóri Arnórssyni, formanni Björgunarfélagsins, og Kristínu Hartmannsdóttur, formanni framkvæmda- og hafnarráðs Vestmannaeyja, í fyrradag.
„Landsbjörg er í risastóru verkefni með að endurnýja þennan björgunarskipaflota vítt og breitt um landið,“ segir Íris og bætir við að Björgunarfélagið hafi leitað til bæjarins vegna svonefnds Bátasjóðs félagsins. Segir Íris að bæjarstjórnin hafi ákveðið fljótlega að bærinn myndi koma myndarlega að þessu máli.
„Það er gríðarlega mikilvægt fyrir samfélagið hér í Eyjum að hér sé vel útbúið björgunarskip. Við erum sjávarútvegspláss og það skiptir okkur öllu máli að hafa öflugan og öruggan björgunarbúnað. Nýtt björgunarskip skipar stóran þátt í því og eykur öryggi sjúkraflutninga á sjó og bara björgunargetuna hér í Vestmannaeyjum,“ segir Íris.
Björgunarsveit Vestmannaeyja varð 100 ára árið 2018. „Þeir hafa sinnt mjög óeigingjörnu starfi í gegnum tíðina og bæjarstjórninni fannst því vel til fundið að koma vel að þessu verkefni og styrkja félagið með þessum hætti,“ segir Íris. Vestmannaeyjabær mun greiða sjö milljónir á ári næstu fimm árin til verkefnisins og fyrsta skipið verður komið til landsins síðsumars. „Það kemur einmitt hingað til Vestmannaeyja,“ segir Íris að lokum.