„Það truflar mig ekki neitt“

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og mótmælendur fyrir fram Ráðherrabústaðinn fyrir hádegi.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og mótmælendur fyrir fram Ráðherrabústaðinn fyrir hádegi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir það ekki trufla sig að mótmælendur krefjist þess að hann segi af sér. Það sé málfrelsi í landinu. Hann hefur hins vegar sagt að hann telji ekki ástæðu til þess að hann íhugi stöðu sína eða segi af sér vegna þeirrar gagnrýni sem fram hefur komið á sölu 22,5 prósenta hlut ríkisins í Íslandsbanka.

Hópur mótmælenda safnaðist saman fyrir utan Ráðherrabústaðinn í morgun þar sem fram fór rikisstjórnarfundur. Fólkaði hrópaði meðal annars „Bjarni burt“ og „Bjarna á Hraunið“. Mótmælendur hækkuðu svo róminn þegar bæði Bjarni og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra komu út úr ráðherrabústaðnum.

Bjarni lætur það hins vegar ekki trufla sig. „Það truflar mig ekki neitt, það er málfrelsi í þessu landi. Það er allt gott um það að segja. Ég læt það ekki trufla mig. Þau atriði sem við höfum viljað að færu í skoðun, þau eru í athugun. Það er ágætt að gefa því þann tíma sem það þarf,“ segir Bjarni.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Vísar hann þar til þess að Rík­is­end­ur­skoðun er með söl­una til skoðunar, að beiðni fjár­málaráðherra, og fjár­mála­eft­ir­lit Seðlabank­ans hef­ur einnig hafið rann­sókn á til­tekn­um þátt­um tengd­um söl­unni.

Mótmælt var á Austurvelli um síðustu helgi og fleiri mótmæli hafa verið skipulögð. Bjarni telur að fólk vilji leita skýringa en bendir á að í tveimur aðgerðum hafi verið framkvæmd sala á ríkiseign sem hafi skapað gríðarleg verðmæti fyrir ríkissjóð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert