Um 1.900 manns búa í atvinnuhúsnæði

Frá blaðamannafundinum í Skógahlíð, en slökkviliðið var kallað út vegna …
Frá blaðamannafundinum í Skógahlíð, en slökkviliðið var kallað út vegna elds í Kópavogi á meðan fundinum stóð og pallborðið fylgdist með bifreiðinni renna úr hlaði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alls eru 204 heimilisföng með skráða búsetu í atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Þar er áætlað að búi 1.868 einstaklingar, þar af 19 börn, samkvæmt talningu eftirlitsfulltrúa slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu. Talningin byggir á samtali þeirra við um helming íbúa, eða alls 933 viðmælendur.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um kortlagningu á fjölda einstaklinga sem eru búsettir í atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu, ásamt ástandi brunavarna í viðkomandi húsnæði og félagslegum aðstæðum íbúa.

Skýrslan, sem var unnin af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS), slökkviliði höfuðborgarsvæðisins (SHS) og Alþýðusambandi Íslands, var kynnt á blaðamannafundi í dag. Viðstödd fundinn voru Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri SHS, Regína Valdimarsdóttir, teymisstjóri hjá HMS, Drífa Snædal, forseti ASÍ, og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og formaður stjórnar SHS.

Viðstödd blaðamannafundinn voru Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri SHS, Regína Valdimarsdóttir, …
Viðstödd blaðamannafundinn voru Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri SHS, Regína Valdimarsdóttir, teymisstjóri hjá HMS, Drífa Snædal, forseti ASÍ og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og formaður stjórnar SHS. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Búseta í atvinnuhúsnæði farið minnkandi

Kortlagningu á búsetu í atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu lauk um miðjan febrúar síðastliðinn. Kortlagningin fól í sér talningu á hversu margir eru búsettir í atvinnuhúsnæði, mat á ástandi brunavarna og greiningu á einstaka félagslegum þáttum meðal íbúa. Niðurstöðurnar gefa til kynna að búseta í atvinnuhúsnæði hafi farið minnkandi frá árinu 2017, þegar síðasta talning átti sér stað, að því er segir í skýrslunni. Þá var áætlað að í kringum 3.500 til 4.000 einstaklingar væru búsettir í atvinnuhúsnæði.

Aðflutt launafólk í meirihluta

Niðurstöður nýju skýrslunnar sýna að meirihluti þeirra sem búa í atvinnuhúsnæði í dag er aðflutt launafólk eða um 77% íbúa, ef horft er til móðurmáls og stöðu á vinnumarkaði.

Ætla má að breytingarnar sem hafa átt sér stað á milli síðustu tveggja kortlagninga, þ.e. áranna 2017 og 2022, séu að hluta til fólgnar í því að aðflutt launafólk fór aftur til heimalanda sinna vegna samdráttar í atvinnulífinu þegar kórónuveirufaraldurinn skall á.

Búsetan komin til að vera

Fram kemur í skýrslunni að ýmsir áhrifaþættir kunni að valda því að íbúafjöldi i atvinnuhúsnæði er breytilegur á milli ára og í takt við breytingar í þjóðfélaginu.

„Það breytir því ekki að ávallt er einhver íbúafjöldi búsettur í atvinnuhúsnæði, auk þess sem ákveðinn kjarni kann einnig að vera til staðar og er þá átt við einstaklinga sem búa í eigin atvinnuhúsnæði. Það liggur því í augum uppi að búseta í atvinnuhúsnæði er komin til að vera og að ekki er lengur hægt að horfa á slíka búsetu sem vandamál heldur þarf að horfa á slíka búsetu með öðrum augum og taka fyrstu skrefin í að vinna með þessar aðstæður,“ segir í skýrslunni.

Ekki alltaf samræmi 

Varðandi aðbúnað í atvinnuhúsnæði kemur fram að ekki hafi alltaf verið samræmi á milli ástands brunavarna annars vegar og annars aðbúnaðar hins vegar. Stundum hafi brunavarnir verið í toppstandi en annar aðbúnaður mjög slæmur þar sem viðhaldi hafi ekki verið sinnt og húsnæðið verið óþrifalegt.

„Aðspurð um versta aðbúnaðinn sem eftirlitsfulltrúarnir sáu í kortlagningunni nefndu þau oftast húsnæði þar sem erlent verkafólk býr í. Þar sé oft mikil hreyfing á fólki, starfsfólk stoppi gjarnan aðeins í nokkra mánuði í senn á landinu og svo taki nýtt fólk við,“ segir í skýrslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert