„Það er svo gaman að sjá börnin vaxa og dafna. Sjá sveitirnar þróast, vera með fólkinu og reyna að hafa þjónustuna sem besta. Ég hef átt frábært samband við marga foreldra og mér er efst í huga þakklæti fyrir allt það traust sem mér hefur verið sýnt.“
Þetta segir Rúnar Óskarsson, skólabílstjóri í Reykjahverfi í S-Þingeyjarsýslu, en hann heldur upp á það um þessar mundir að hafa verið með skólaakstur í sveitinni í fjörutíu ár.
Rúnar, sem er menntaður húsasmiður, hóf skólaakstur veturinn 1982 en þá losnaði þetta starf óvænt um miðjan vetur. Þá keypti hann Benz-kálf sem tók 21 í sæti en skólabörnin voru þá 19 þegar mest var þann vetur. Til margra ára voru þau á bilinu 14-19 en þegar þau voru flest fóru þau eitthvað yfir tuttugu.
Um 1990 voru t.d. tíu börn við eina heimreiðina sem biðu eftir bílnum, en í dag er þar ekkert barn. Breytingin er mikil og í dag eru börnin sem ekið er í skóla aðeins sex talsins úr allri sveitinni. Skólaakstur Rúnars var lengst af í Hafralækjarskóla í Aðaldal, en nú seinni árin fara öll börn úr Reykjahverfi til Húsavíkur í skóla. Rúnar telur að skólabörnum eigi ekki eftir að fækka meira og e.t.v. muni þeim heldur fjölga á næstu árum.
„Ég hef, sem betur fer, búið við mikið lán í skólaakstrinum því það má segja að það hafi aldrei neitt slæmt komið fyrir,“ segir Rúnar.
„Ég hef haft það fyrir reglu í stórhríðum og öðrum slæmum veðrum að skilja börnin ekki ein eftir við póstkassana. Ég hef oft hringt í foreldra og beðið þau að sækja börnin eða fylgjast með þeim og þá hef ég oft ekið þeim heim að dyrum hafi þess þurft.“
Hann segir að þessi vetur núna hafi verið hvað auðveldastur á öllum hans ferli hvað veður og færð snertir. Hins vegar hafi oft verið erfið tímabil á þessum fjörutíu árum.
Nánar er rætt við Rúnar í Morgunblaðinu í dag.