Hvað er Hollywood-leikari, tónlistarmaður og grínisti að gera hér á hjara veraldar? Það var spurningin sem vaknaði þegar blaðamaður frétti að hér á landi byggi Nick Jameson sem leikið hefur í fjöldanum öllum af kvikmyndum og sjónvarpsseríum vestra. Nick féllst á að segja sína sögu og bauð blaðamanni í heimsókn í íbúð sína í miðbænum en hann er sannkölluð miðbæjarrotta sem vill geta gengið allra sinna ferða. Nick fékk nefnilega yfir sig nóg af því að sitja fastur í umferð tímunum saman í Los Angeles þar sem hann bjó nær öll sín fullorðinsár, eða þar til fyrir sjö árum þegar hann ákvað að fylgja innsæinu og elta draumana. Alla leið til Íslands.
„Ég kom hingað um jól eitt árið því mig langaði að fara eitthvað sem ég hefði ekki áður farið og þar sem væri jólalegt. Ég kom því hingað og féll algjörlega fyrir landinu. Jólin á eftir ætlaði ég að fara til einhvers hinna norrænu landanna en vildi bara koma hingað aftur. Sú ferð var enn betri en sú fyrsta. Svo kom ég hingað þriðju jólin og það var þá sem ég ákvað að flytja hingað. Þannig að ég hafði í raun aldrei séð Ísland í dagsbirtu þegar ég tók þessa stóru ákvörðun,“ segir Nick og hlær.
Nick segist strax hafa tengst fólkinu hér.
„Ég hitti hér fullt af fólki og eignaðist strax vini á kaffihúsum og tónlistarstöðum. Það er erfitt að útskýra hvers vegna en eftir nokkur ár hér á ég fleiri vini en ég á í Los Angeles,“ segir Nick.
„Það var eins og Reykjavík væri að kalla mig til sín, að segja mér að flytja hingað því hér væri fullt af góðu fólki,“ segir Nick og segist í raun aldrei hafa kunnað vel við sig í Los Angeles.
„Ég bjó þar lengi vegna vinnu minnar sem leikari og hugsaði oft um að flytja annað en vissi ekki hvert mig langaði. Þannig að þegar ég varð ástfanginn af Íslandi ákvað ég að ég myndi bara láta það ganga. Ég losaði mig við allar mínar eigur og kom hingað með tvær hendur tómar,“ segir Nick en hann hefur nú búið hér í sjö ár.
Nick hafði mikinn áhuga á tónlist alveg frá blautu barnsbeini en leiklistarbakterían lét á sér kræla löngu síðar.
„Ég var alltaf í hljómsveitum sem barn og unglingur; misvel heppnuðum. Þegar ég var fjórtán ára í Grikklandi átti bandið mitt lag sem fór á toppinn,“ segir hann og hlær.
„Þegar ég flutti heim frá Grikklandi var ég í hljómsveit í Fíladelfíu sem gekk mjög vel. Ég fór þaðan til Woodstock í New York-ríki og fór að vinna í hljóðveri því ég vildi læra að stjórna upptökum á plötum. Albert Grossman átti hljóðverið en hann var umboðsmaður Bobs Dylans og Janis Joplin. Margar rokkstjörnur sjöunda áratugarins fóru þarna í gegn. Ég kynntist svo hljómsveitinni Foghat og gaf út þeirra plötur um hríð,“ segir Nick. Hann átti síðar eftir að ganga til liðs við bandið en hann er fjölhæfur tónlistarmaður.
„Ég spila á mandólín, gítar, hljómborð og bassa og spilaði einmitt á bassa með Foghat. Ég spilaði mest rokk og blús á þessum árum í Woodstock,“ segir hann og segist sjálfur semja mikið tónlist og hefur gert alla tíð.
Hvernig fórstu úr tónlist í leiklistina?
„Ég flutti til Atlanta til að gera plötu og ílengdist þar. Ég var í klettaklifri þegar ég datt fram af bjargi og rústaði ökklanum, sem þýddi að ég var inn og út af spítölum í ár. Vegna þess missti ég plötusamning minn við Motown-útgáfuna. Ég varð alveg staurblankur! Ég átti vin sem vann við að talsetja og ég hugsaði: ég get gert það! Ég hafði alla ævi verið að herma eftir og var heillaður af röddum og mismunandi hreimum. Ég bjó til upptöku og var ráðinn og fann mig mjög vel í þessu starfi. Þetta var auðvelt starf; maður mætti, talsetti í hálftíma og fékk sín laun,“ segir hann og hlær.
„Eitt leiddi af öðru og ég endaði í spuna og uppistandi og að leika,“ segir hann og segist hafa byrjað að leika í spunahópi í Atlanta.
„Ég flutti svo til LA og hélt því áfram og var í nokkrum spunahópum. Ég stofnaði spunahljómsveit og það hefur alltaf verið mín ástríða; að spinna upp lög á staðnum. Þaðan lá leiðin í leiklist en það hjálpaði mér hvað það lá vel fyrir mér að vera eftirherma og ná hreimum. Þannig var auðvelt að fá hlutverk sem krafðist þess,“ segir Nick en hann hafði lært leiklist í skóla í Atlanta áður en hann flutti til Los Angeles.
„Ég lærði meðal annars hjá Gordon Hunt, sem er faðir Helen Hunt. Ég fékk mjög fljótlega hlutverk og lærði mest af því að vera á setti,“ segir hann.
„Fyrsta hlutverk mitt í sjónvarpi var í þættinum The Golden Girls en þar lék ég trúbador á veitingastað. Á sama tíma var ég í spunasýningu og þekktur leikstjóri kom og sá sýninguna, sem var mjög léleg! Daginn eftir hringdi hann og vildi ráða mig í dramahlutverk. Ég var ekki fyndinn þetta kvöld og hann hlýtur að hafa hugsað að fyrst ég væri svona lélegur í gríninu gæti ég kannski eitthvað í dramatík,“ segir hann og hlær.
„Ég fékk þá hlutverk í lögfræðiþættinum The Antagonists. Það var mjög skemmtilegt að leika í þessum þáttum. Ég sem hafði verið mikið í gríni hélt að ég fengi fleiri gamanhlutverk en eftir því sem tíminn leið fékk ég sífellt fleiri dramahlutverk. En ég gerði hvort tveggja.“
Leiklistarferillinn gekk vel og Nick hafði nóg að gera, en hann var mest í aukahlutverkum.
„Ég var með umboðsmann, bæði fyrir kvikmyndir og sjónvarp og svo fyrir talsetningar. Ég var líka alltaf í tónlistinni og spunaleiknum,“ segir Nick sem notaði hvert tækifæri sem gafst til að standa á sviði og semja spunatónlist.
Á tíunda áratugnum lék Nick í mörgum grínseríum, eins og í Seinfeld.
„Ég lék þar þýskan túrista sem lendir í útistöðum við Kramer. Ég er enn að hitta fólk sem segist hafa séð mig í Seinfeld,“ segir hann og hlær.
„Ég fékk svo hlutverk í þáttum á borð við Criminal Minds, NCIS, Lost og svo lék ég í 24, í þremur seríum. Það var virkilega skemmtilegt. Ég lék rússneska forsetann,“ segir hann og bætir við:
„Ég skammast mín fyrir það akkúrat núna,“ segir hann og hlær.
Nick lék hlutverkið með rússneskum hreim að sjálfsögðu.
„Ég þurfti að læra smávegis í rússnesku,“ segir Nick og er dottinn í karakter; rússneski hreimurinn leynir sér ekki.
„Ég kom inn í fimmtu seríu og var í nokkrum þáttum. Ég lék svo í sjöttu seríu og þeirri áttundu en þar var ég illmennið, sem ég var ekki áður. Ég lék hann fyrst eins og diplómatana sem ég hafði séð í mínu uppeldi; kúltíveraður og menntaður og alls enginn skúrkur. En svo fékk ég að vera vondur í síðustu seríunni, sem er draumur hvers leikara, að leika skúrkinn. Maður lá á bæn og bað um tvennt: ekki drepa mig úr seríunni og gerðu mig að illmenni,“ segir hann og hlær.
„Ég endaði á að bera ábyrgð á dauða allra í áttundu seríunni,“ segir hann íbygginn.
Nick segir að tökurnar á 24 hafi verið mjög afslappaðar, þrátt fyrir hasarinn sem sást á skjánum.
„Það kom alveg fyrir að maður spann texta á staðnum og það var allt í lagi,“ segir Nick og segist hafa eignast marga góða vini á settinu.
Þekkti fólk þig úti á götu í Los Angeles?
„Það kom fyrir já,“ segir Nick og þvertekur fyrir að hafa lifað einhverju glamúrlífi sem leikari í Hollywood.
„Flestir leikarar þarna mæta bara í vinnuna og lifa frekar venjulegu lífi. Ég vann mjög mikið og ef ég var ekki að vinna var ég að sinna tónlistinni, spunanum eða uppistandi.“
Talsetning teiknimynda og tölvuleikja er vinna sem Nick nýtur mjög, en hann hefur meðal annars unnið að talsetningu í hinni geysivinsælu teiknimynd Frozen.
Því miður geta lesendur ekki heyrt rödd Nicks, en best væri að lýsa henni sem afar heillandi, hrjúfri og víbrandi, traustvekjandi jafnvel.
„Ég er núna að vinna að teiknimynd sem Paul McCartney er að gera sem ég held að verði frábær. Hún er byggð á barnabók eftir hann. Ég get unnið þessa vinnu hér á Íslandi en ég er enn að fá boð um að vinna slíka vinnu. Ég tek ekki að mér nein hlutverk núna í Los Angeles nema þau séu frábær eða borgi mjög vel,“ segir Nick og segist fara þangað í heimsókn nokkrum sinnum á ári.
Fannst vinum og fjölskyldu ekkert skrítið að þú skyldir allt í einu setjast hér að?
„Ísland er virt land og fólki finnst það kúl. Fólk veit núna miklu meira um Ísland en áður. Nú er það sveipað töfraljóma. Fólki fannst það ekki skrítið en var kannski hissa. Það skildi ekki að ég væri að fara úr leiklistinni í LA og til Íslands. Ég held að flestir hafi dáðst að mér að taka þetta skref, að elta drauma mína. Ég á í ástarsambandi við Ísland. Ég fann minn töfrastað.“
Ítarlegt viðtal er við Nick í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.