Sárin eru ljót og gætu sést lengi í landinu

Í stað þess að aka í gegnum snjóinn á veginum …
Í stað þess að aka í gegnum snjóinn á veginum hafa ökumenn tekið krókinn og útkoman þessi hjólför, sem gætu orðið kaun í landinu. Ljósmynd/Páll Gíslason

Nokkur brögð hafa verið að utanvegaakstri á Bláfellshálsi á Kjalvegi síðustu daga, þar sem nú sjást ljót för eftir bíla sem ekið hefur verið í gljúpum og blautum jarðvegi. Þetta er sunnanvert á hálsinum, þar sem ekið er upp langa brekku sem snjódriftir eru enn í. Til að komast áfram hafa bílstjórar því í nokkrum tilvikum freistast til þess að taka lykkju út fyrir vegi með afleitum afleiðingum.

Snjómokstur er besta bragðið

„Mér finnst hræðilegt að sjá þetta. Sárin eru ljót og gætu sést lengi sem ör í landinu. Allra verst í málinu finnst mér að utanvegaakstur á þessum slóðum er alveg ástæðulaus. Á öflugum bílum ættu menn alveg að geta komist í gegnum snjóinn sem enn er í vegunum, og minnkar raunar með hverjum degi,“ segir Páll Gíslason, staðarhaldari í Kerlingarfjöllum. Hann hefur síðustu dagana verið á Kjalvegi við snjómokstur svo fært verði sem fyrst í Kerlingarfjöll. Að moka burt snjó og greiða leiðir sé raunar þegar öllu er á botninn hvolft besta bragðið gegn utanvegaakstri, sem sé allt of algengur.

„Mér finnst sennilegt að fjallaskíðafólk hafi markað þessi för á Bláfellshálsi. Margir úr þeim hópi eru þarna á ferðinni, enda góðar aðstæður til að bruna niður brekkurnar þarna á skíðum. Kapp er þó best með forsjá,“ segir Páll – sem tilkynnt hefur spjöllin til bæði Umhverfisstofnunar og lögreglu.

Hákon Ásgeirsson, hópstjóri náttúruverndar hjá Umhverfisstofnun, segir að þangað berist alltaf og í nokkrum mæli tilkynningar um utanvegakstur og landspjöll sem slíku fylgi. Öll mál séu skoðuð og metið hvort til ráðstafana sé gripið. Stundum sé lögð inn kæra hjá lögreglu, en þá sé mikilvægt að einhverjar upplýsingar liggi fyrir um meinta gerendur.

Stundum fari landverðir og kanni vettvang, og séu skemmdir afturkræfar sé reynt að berja í brestina. Stundum sé hægt að jafna sár eftir utanvegaakstur með skólfum og hrífum, eða eftir atviku með vinnuvélum sem duga.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert