Lögreglumenn fjarlægðu í gær listaverkið Farangursheimild sem stóð fyrir utan Nýlistasafnið í Marshall-húsinu í Reykjavík. Hluti af verkinu var bronsstyttan Fyrsta hvíta móðirin í Ameríku eftir Ásmund Sveinsson sem stolið var frá Laugarbrekku á Snæfellsnesi í byrjun mánaðarins.
Jón Sigurður Ólason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vesturlandi, sagði við Morgunblaðið í gær að kollegar hans í Reykjavík hafi fjarlægt listaverkið að beiðni hans og var það flutt vestur á land í kjölfarið. Kristinn Jónasson, bæjarstjóri í Snæfellsbæ, hafði kært þjófnaðinn og eignaspjöll til lögreglu. „Þetta er með sérstakari málum sem maður man eftir. Styttan er inni í einhverri rakettu og nú þarf að losa hana þaðan og meta hvort hún er skemmd. Hún fer því ekki alveg strax á sinn stað aftur,“ sagði Jón Sigurður yfirlögregluþjónn.
Greint var frá því í fjölmiðlum á dögunum að styttu Ásmundar hafi verið stolið af stöpli á Laugarbrekku. Styttan er af Guðríði Þorbjarnardóttur sem einnig er þekkt sem Guðríður víðförla en hún var uppi í kringum árið 1000. Guðríður komst til Vínlands og eignaðist þar soninn Snorra Þorfinnsson sem talinn er fyrsta barnið af evrópskum uppruna sem fæddist í Ameríku.
Stytta Ásmundar er talin vera fyrsta íslenska styttan sem gerð var af nafngreindri konu. Hana gerði Ásmundur Sveinsson fyrir heimssýninguna í New York árið 1939.
Styttan var vegleg smíði, úr gifsi, um þriggja metra há. Lítil frummynd verksins er enn til og nokkrar eftirgerðir í sömu stærð, þar á meðal sú er stolið var á dögunum. Styttan sýnir Guðríði standa í stafni skips og á öxl hennar stendur Snorri sonur hennar.
Listakonurnar Bryndís Björnsdóttir og Steinunn Gunnlaugsdóttir eru höfundar verksins Farangursheimild sem fjarlægt var við Nýlistasafnið í gær. Þær hafa lýst því yfir að réttlætanlegt hafi verið að taka styttuna af sínum stað á Snæfellsnesi enda sé verk Ásmundar rasískt. Titill þess einn og sér gefi til kynna að verkið byggist á kynþáttafordómum.
Sunna Ástþórsdóttir, safnstjóri Nýlistasafnsins, sagði við Morgunblaðið í gær að atburðarásin í tengslum við verkið Farangursheimild hafi verið skrítin en stjórnendur safnsins hafi ekki vitað að stytta Ásmundar myndi birtast þar. „Nú er þetta orðið lögreglumál og það er í höndum lögreglu að leiða það til lykta,“ sagði hún.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.