„Þótt ekki hafi enn tekist að uppfylla áskilnað um birtingu allra þeirra upplýsinga sem reglur kveða á um stendur það til bóta á allra næstu vikum enda sýslumönnum vel ljóst að um mikilsverðar upplýsingar er að ræða fyrir alla þá fjölmörgu sem þær varða,“ segir Jónas B. Guðmundsson, sýslumaður á Vestfjörðum og formaður fagráðs sýslumanna um leyfisveitingar.
Í viðtali í Dagmálum og frétt í Morgunblaðinu á fimmtudag gagnrýndi Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, að ekki sé hægt að nálgast upplýsingar um leyfi sem sýslumenn gefa út, flokkun gististaða, fjölda þeirra, fjölda herbergja og fleira. „Þetta er allt til í lokuðu skjali hjá sýslumanninum á Ísafirði sem þverneitar að afhenda okkur,“ sagði Jóhannes í viðtalinu.
Jónas sýslumaður segir við Morgunblaðið að umræddar skrár eigi vissulega að birta á vef sýslumanna en misbrestur hafi orðið þar á að undanförnu.
„Upplýsingar um útgefin rekstrarleyfi hafa ekki verið nægilega aðgengilegar síðustu mánuði vegna færslu á margháttaðri þjónustu sýslumanna yfir í stafrænt viðmót, sem kostað hefur mikla vinnu við forritun og smíði nýrra tölvukerfa þar sem óhjákvæmilegt hefur verið að forgangsraða. Úr þessu hefur þó verið bætt og hefur um nokkurt skeið mátt nálgast grunnupplýsingar um útgefin leyfi á vefnum Ísland.is,“ segir Jónas.
„Þar má t.d. sjá að gild leyfi til sölu gistingar og/eða sölu áfengis á veitingastöðum eru tæplega 2.300,“ segir hann enn fremur. Þá segir Jónas að á vefnum megi sjá að nú séu ríflega 800 skráningar vegna heimagistingar.