Vélin lítið skemmd

Flugvélin var hífð upp úr vatninu í gærkvöldi en hún …
Flugvélin var hífð upp úr vatninu í gærkvöldi en hún hafði legið á botni þess allt frá 3. febrúar, þegar allir fórust sem um borð höfðu verið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Flugvélin sem fórst í Þingvallavatni 3. febrúar var hífð upp úr vatninu í gærkvöldi, eftir umfangsmiklar aðgerðir og langan undirbúning þeirra sem komu að aðgerðunum.

Um borð í hinstu ferð vélarinnar var íslenski flugmaðurinn Haraldur Diego, ásamt þremur erlendum ferðamönnum frá Bandaríkjunum, Belgíu og Hollandi. Þeir létu allir lífið.

Beðið var með að hífa vélina upp þar til í gær þar sem að ekki var talið tryggt að gera það fyrr, en vélin var á 48 metra dýpi og aðgerðir við að ná henni upp tæknilega flóknar. Aðgerðir í gær hófust snemma morguns og stóðu yfir fram á kvöld. Alls tóku um 55 manns þátt í aðgerðunum.

Lögreglan á Suðurlandi, starfsfólk ríkislögreglustjóra, tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og tölvudeild, Brunavarnir Árnessýslu, Landsbjörg, Landhelgisgæslan, og fimm björgunarsveitir komu að undirbúningi aðgerðanna.

Hífðu fyrst upp muni úr vélinni í kistu

Áður en vélin sjálf var hífð upp voru munir úr henni hífðir upp á land, í sérstakri kistu. „Þetta er kista sem að við smíðuðum til að geyma sönnunargögn í – raftæki, fatnað og annað,“ sagði Lárus Kazmi, stjórnandi köfunarhóps sérsveitar ríkislögreglustjóra, í samtali við mbl.is í gærkvöldi.

Er vélin var komin upp á land gerði rannsóknarnefnd samgönguslysa (RNSA) vettvangsrannsókn á vélinni áður en henni var pakkað inn og hún flutt í skýli nefndarinnar í Reykjavík.

Ragnar Guðmundsson, rannsakandi hjá nefndinni, segir í samtali við Morgunblaðið að líklega muni frumrannsókn á vélinni hefjast nú um helgina.

Að sögn Ragnars virðast skemmdir á flugvélinni ekki vera miklar, þær séu helst framan á og neðan á vélinni. Hann segir að þær skemmdir sem vélin beri með sér hafi ekki komið honum á óvart en ítrekar að ítarleg skoðun eigi eftir að fara fram.

Spurður hversu langan tíma rannsókn sem þessi taki segir Ragnar: „Það er mjög erfitt að segja. Hver rannsókn er einstök. Það fer í raun eftir því hvað það tekur langan tíma að rannsaka þessa þætti rannsóknarinnar og í hvaða átt það leiðir okkur, hvort við þurfum að senda eitthvað í sérgreiningu eða niðurrif eða eitthvað slíkt. Það er enn þá ekki komið í ljós hvernig það verður.“ 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka