Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, spurði Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hvers vegna Bankasýsla ríkisins verði lögð niður og hvað tæki við, í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.
„Ég er ánægður með meginniðurstöðu í söluna á hlutabréfunum í Íslandsbanka þegar horft er til þess hvað stendur í lögunum, hvað við sögðumst ætla að gera, verðið, hluthafalistann. Ég held við höfum náð mjög vel öllum okkar meginmarkmiðum í að tryggja dreift eignarhald á almenning sem hluthafa,“ sagði Bjarni.
Hann sagði að er byrjað var að ræða að skrá bankann á markað fyrir ári síðan, þá hefið þessi niðurstaða ekki verið talin ómöguleg og nefndi í því samhengi sérstaklega að bankinn hafi verið seldur á 50% hærra verði en fyrir tæpu ári síðan.
„Bankasýslunni var upphaflega komið á laggirnar til bráðabirgða, í raun og veru, til að losa hratt og örugglega um eignahlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum en síðan breyttust tímarnir.“
Bjarni sagði að lagt verði fram við Alþingi að nýjar leiðir verði farnar í að selja frekari eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka í framtíðinni.
Sigmundur sagði að það hljómaði eins og þrír ráðherrar hafi hist um páskana og sagt að eitthvað þyrfti að gera og ákvörðunin hafi verið að gera eitthvað, sem sagt að leggja niður Bankasýsluna.
Hann benti á að ekki liggi fyrir áform um hvað taki við.
„Eða voru þetta bara fálmkennd viðbrögð til að bregðast við gagnrýni á söluna?“
Bjarni sagði þá að áfram verði tryggt að stjórnmálamenn verði ekki sendir inn í stjórnir ríkisbanka, eða fyrir hönd ríkisins inn í banka sem ríkið fer með eignarhald.
„Við munum áfram tryggja fagmennsku í því hvernig staðið verður að skipan í stjórnir, alveg eins og Bankasýslan hefur gert ágætlega samkvæmt lögum.“
Þá sagði Bjarni að allar aðrar kostir sem felast í leiðum Bankasýslunnar verði teknir til skoðunar til þess að losa um eignarhluti ríkisins.