Gekk fram á náttúruspjöll við Sveifluháls

Þorbirni blöskraði á göngu sinni um Sveifluháls þegar hann sá …
Þorbirni blöskraði á göngu sinni um Sveifluháls þegar hann sá umfangsmikil náttúruspjöll, líklega eftir ferðir manna á mótorhjólum. mbl.is/Þorbjörn Gestsson

„Það eru alltaf hálfvitar þarna inni á milli en ég myndi segja að flestir beri virðingu fyrir landinu,“ segir Þorbjörn Gestsson í samtali við Morgunblaðið, um náttúruspjöll sem hann gekk fram á er hann var á göngu um Sveifluháls á Reykjanesi.

Þorbjörn telur líklegt að mótorkrosskappar hafi keyrt út af göngustígnum við Sveifluháls, en mótorkrossbraut er í grennd við hálsinn.

Aðspurður segir hann að þessi háttsemi komi sér ekki óvart þar sem á göngum sínum síðustu ár hafi hann gengið fram á fjölda náttúruspjalla.

Hann kveðst telja það eina í stöðunni að koma upp myndavélaeftirliti og að Umhverfisstofnun noti dróna til þess að kortleggja náttúruspjöll á Reykjanesi. „Ég held að það sé eina vitið, myndavélavöktun.“

Erfitt að velja svæði

Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunnar, segir að því miður sé alltaf eitthvað um svona brot. Aðspurð segir hún stofnunina ekki hafa skoðað það að setja upp myndavélaeftirlit þar sem það yrði of umfangsmikið.

„Ég held það yrði nokkuð erfitt að velja svæðin, það er svo víða sem þetta getur gerst.“

Spurð út í fyrirbyggjandi aðgerðir stofnunarinnar segir Sigrún að þær felist aðallega í fræðslu. Einnig leggi stofnunin gríðarlega áherslu á friðlýst svæði, en þar fylgist landverðir vel með. Fjöldi brota á sér þó stað utan slíkra svæða og ýmist fær stofnunin ábendingar eða verður var við þau sjálf. Alla jafna tilkynnir stofnunin hvers kyns náttúruspjöll til lögreglu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka