Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, spyr Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra að því hvaða ábyrgð hún beri á því að koma Sjálfstæðisflokknum til valda og Bjarna Benediktssyni inn í fjármálaráðuneytið. Spurninguna lagði hún fram í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Það var hins vegar fátt um svör hjá Katrínu.
Þá spurði Halldóra hvort Katrínu þætti þetta í alvöru í lagi að að fjármálaráðherra hefði ekki farið yfir tilboðin í sölunni á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Ráðherra bæri að fara yfir tilboð í lokuðu útboði.
„Eru í alvöru viðbrögð hæstvirts forsætisráðherra að skýla sér á bak við það að það hafi ekki verið andi laganna að fjármálaráðherra tæki ábyrgð og myndi undirrita tilboðin og skoða þau áður en hann gerir það,“ spurði Halldóra.
„Ákvæðinu er ætlað að koma í veg fyrir að fjármálráðherra geti selt pabba sínum banka. Það er nákvæmlega ástæðan fyrir þessu ákvæði. Til að koma í veg fyrir það,“ sagði Halldóra jafnframt.
Sem svar við spurningu hvort henni þætti þetta í lagi sagðist Katrín aðeins geta vísað til gagna. Kveðið væri á um skýra verkaskiptingu á milli ráðherra og Bankasýslunnar í greinargerð um sölumeðferðina. Hún ítrekaði það sem fram hefur komið að mikilvægt væri skoða málið til hlítar, sem væri verið að gera.
Halldóra sagði að Bjarna hefði mátt vera ljóst að á útboðslistanum væri að finna nöfn á fólki sem hann hefði tengsl við.
„Tengsl Bjarna Benediktssonar eru það víðtæk og marglaga að hann hlýtur að hafa vitað hverja hann myndi finna á tilboðslistanum. Hann hlýtur að hafa vitað að hann myndi finna gamla kunningja og jafnvel ættingja á listanum. Og ef hann hefði kannað tilboðin hlítar hefði kannski komið umsvifalaust í ljós að hann væri bara vanhæfur til að taka ákvarðanir um að samþykkja eða hafna tilboðunum.“
Hún sagði að hans eina leið hafi verið að halda fyrir nefið og vona það besta.
„Sjálfstæðisflokkurinn er nefnilega holdgervingur eitraða kokteilsins. Sjálfstæðisflokkurinn var barþjónninn sem hristi þetta allt saman saman.“
Sagði Halldóra að Vinstri græn hefðu einu sinni verið sammála þessu.
Katrín sagði að ætlunin með lögunum hefði verið að tryggja ákveðna fjarlægð á milli hins pólitíska valds og þess framkvæmdaraðila sem færi með söluna. Sömuleiðis hafi verið ákveðið að einstaka sölur skyldi ekki bera undir Alþingi nema með þeim hætti að óska skyldi umsagna frá nefndum þingsins.
„Ég ætla að leyfa mér að efast um að það hafi verið vænleg leið, ég tel að Alþingi eigi að hafa meiri aðkomu að þessu máli.“
Þegar horft væri á reynsluna væri ekki óeðlilegt að Alþingi samþykkti þegar verið væri að selja einstaka hluta og kafaði þá ofan í málin.