Logi Einarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að fjármálaráðherra hafi að minnsta kosti gerst sekur um um brot á siðareglum og frændhygli, hafi hann farið að lögum og tekin virkan þátt söluferlinu á hlut ríkisins í Íslandsbanka, líkt og lög kveði á um.
Hafi hann hins vegar ekki starfað í samræmi við lög og fylgst með sölunni, þá sé það vanræksla sem fari í bága við ráðherraábyrgð. Þetta kom fram í máli Loga í óundurbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.
„Spurningin er, hvort er hann sekur um spillingu eða vanrækslu?“ sagði Logi og beindi spurningu sinni til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.
Katrín sagði það ekki hafa verið túlkun ríkisins að ráðherra bæri að fara yfir hvert og eitt tilboð og velja og hafna, enda ynni það væntanlega gegn tilgangi þess að hafa ferlið í sjálfstæðri stofnun, sem Bankasýslan ríkisins er.
Logi sagðist ekki hafa átt við að ráðherra hafi þurft að kafa ofan í hverja og eina kennitölu. Benti hann á að Katrín hefði sjálf sagt að salan hefði ekki verið í samræmi við væntingar um trausta langtíma fjárfesta.
„Í ljós kom að 200 tilboð voru samþykkt og það hefði strax átt að kveikja viðvörunarbjöllur um að ekki væri verið að ræða um fáa langtímafjárfesta. Og hæstvirtur fjármálaráðherra hefur fullyrt að hann hafi ekkert skoðað málið. Er það þá ekki vanræksla af hálfu ráðherra að kynna sér að minnsta kosti ekki hvort að grundvallaratriðum leiðarinnar sem farin var, væri fylgt, áður en hann kvittaði upp á niðurstöðu útboðsins.“
Katrín sagði ákveðin skilyrði hafa verið sett fram um að hæfir fjárfestar tækju þátt í útboðinu og þær skilgreiningar liggi fyrir í lögum. Eitt af því sem sé verið að skoða núna er hvort skilyrðin hafi verið uppfyllt í öllum tilvikum.
„Væntanlega er það hlutverk Bankasýslu ríkisins að tryggja það og þeirra söluráðgjafa sem Bankasýslan ræður til starfa til að sinna þessu að skilyrðum laganna sé fylgt.“
Hún sagðist algjörlega standa við að útboðið hafi ekki staðið undir hennar væntingum.