Launakröfur félagsfólks kunni að falla niður

Gabríel segir óvíst hvort hægt verði að greiða úr sjúkrasjóði …
Gabríel segir óvíst hvort hægt verði að greiða úr sjúkrasjóði Eflingar næstu mánaðamót. Samsett mynd/mbl.is

Gabríel Benjamin, starfsmaður á kjaramálasviði Eflingar og trúnaðarmaður á vinnustaðnum, óttast að launakröfur félagsfólks upp á tugi og jafnvel hundrað milljónir kunni að falla niður vegna þjónustuskerðingar á skrifstofu Eflingar. Þá sér hann ekki fyrir sér að hægt verði að greiða úr sjúkrasjóði nema að hluta um næstu mánaðamót vegna ástandsins.

Öllu starfsfólki á skrifstofunni var sagt upp störfum fyrir tveimur vikum og fáir hafa mætt til vinnu síðan þá. Í síðustu viku náði starfsmannafjöldinn á skrifstofunni ekki tíu manns og enn færri eru mættir til vinnu í dag að sögn Gabríels. Á milli fjörutíu og fimmtíu manns starfa að jafnaði á skrifstofu Eflingar.

Fullyrðingar Sólveigar ekki á rökum reistar

Í gær sendi Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, félagsfólki póst þar sem boðað var til félagsfundar á miðvikudaginn. Í póstinum kom hún einnig inn á stöðuna á skrifstofunni. Sagði það hafa verið áskorun að halda móttöku opinni og sinna þjónustu. Það hafi hins vegar tekist og allt bendi til að hægt verði að sinna þjónustunni áfram, þó einhverjar tafir kunni að verða.

Einnig er tekið fram í póstinum að skipulagsbreytingar á skrifstofunni gangi samkvæmt áætlun og ráðningarferli séu þegar farin af stað.

Gabríel Benjamin er mjög ósáttur við þessar fullyrðingar Sólveigar, enda séu þær ekki á rökum reistar.

„Saðreyndin er sú að það er engin áætlun. Fólkið hér er að reyna að sinna félagsmönnum eftir bestu getu, en við vitum að það eru mörg mál sem munu falla niður. Það er þjónustuskerðingin sem félagsmenn standa frammi fyrir,“ segir Gabríel í samtali við mbl.is

80 til 150 mál bíða afgreiðslu

Hann starfar á kjaramálasviði og starfs hans felst meðal annars í því að veita félagsfólki ráðgjöf og aðstoða það við að fara yfir launaseðla, réttindi og fleira, ásamt því að vinna launakröfur. Að hans sögn er skipulagið þannig í venjulegu árferði að helmingur vinnutímans fer í að taka á móti félagsfólki og hinn helmingurinn í að vinna launakröfur og senda út bréf, sem sé tímafrekt.

Á kjaramálasviði starfa ellefu manns og segir Gabríel að miðað við fjölda mála sem liggi inni hjá honum megi gera ráð fyrir að um 80 til 150 mál bíði afgreiðslu á sviðinu.

„Þetta eru launakröfur sem þarf að ráðast í. Miðað við stöðuna núna þá eru þessi mál að fara að falla niður. Þetta eru tugir milljóna og gæti náð upp í 100 milljónir í launaþjófnað. Eitthvað sem ekki er hægt að endurheimta.“

Fórnarkostnaðurinn svipaður og sparnaðurinn 

Gabríel setur þetta í samhengi við þær upphæðir sem Sólveig Anna telur að verði hægt að spara árlega með hópuppsögnunum og skipulagsbreytingum á skrifstofu Eflingar. En hún hefur sagt að hægt verði að ná fram 120 milljóna króna sparnaði á ári.

„120 milljóna króna sparnaður hjá Sólveigu Önnu, fórnarkostnaðurinn á bak við það er um það bil sama upphæðin beint frá félagsmönnum.“

Margt starfsfólk hefur tilkynnt veikindi og eru færri mættir til starfa á skrifstofu Eflingar í dag en í síðustu viku. Gabríel segir að fólki líði ekki vel.

Hann bendir á að mörg ljót komment séu látin falla um starfsfólkið í kommentakerfum og á samfélagsmiðlum og að Baráttulistinn geri ekkert í því. Stjórnarmeðlimir  læki jafnvel komment og færslur þar sem starfsfólkinu er úthúðað.

Kemur á óvart ef hægt verður að greiða úr sjúkrasjóði

„Öll mál sem koma hingað inn í dag eru mál sem ég þarf að skilja eftir fyrir einhvern annan. Ég næ ekki að sinna þeim. Það eina sem ég næ að gera er að taka á móti fólki. Ef um einföld mál er að ræða er hægt að sinna þeim, en ef það er launakrafa þá þarf hún að bíða eftir þeim sem tekur við mínu starfi. Allar launakröfurnar eru á sama stað. Ég er ekki að fara að ná heilli viku þar sem ég tek ekki á móti félagsmönnum. Þetta er bara neyðarhjálp sem við erum að veita, það er engin þjónusta,“ útskýrir Gabríel.

Þá segir hann að aðeins einn starfsmaður sé í vinnu hjá sjúkrasjóðnum, sem margir félagsmenn reiði sig á greiðslur úr. „Ég veit ekki hvað gerist um mánaðamótin. Ef það tekst að greiða eitthvað út þá er það stórsigur og sýnir fram á þrautseigju þeirra sem eru hér enn. En það kemur mér á óvart ef það verður hægt að borga helminginn. Venjulega eru margir sem sinna þessu starfi, en það er ein manneskja hérna núna.“

Gabríel segist það fulljóst að allur kostnaður sem af hópuppsögnunum hljótist verði mun meiri en nokkurn tíma sparnaðurinn sem kunni að nást.

Óttast að skaðinn verði langvarandi 

Hann segist skynja gríðarlega óánægju meðal félagsfólks, en tæplega 500 félagsmenn náðu að knýja fram félagsfund sem haldinn verður á miðvikdaginn. Þar verður meðal annars hægt að leggja fram vantrauststillögu á formann eða hvetja til þess að hópuppsagnir verði dregnar til baka.

„Þeir félagsmenn sem hafa leitað til mín með erindi hafa allir lýst yfir óánægju með þetta og atvinnurekendur hafa einnig hringt.“

Í auglýsingu fyrir félagsfundinn kemur fram að tilgangurinn sé að fjalla um skipulagsbreytingar á skrifstofu félagsins.

Gabríel telur allt geta gerst á fundinum. Það fari allt eftir því hverjir mæta á hann og hvort meirihluti stjórnar Eflingar smali sínu stuðningsfólki á fundinn. Þá geti Sólveig fengið uppreist æru. Það geti líka farið þannig að lögð verði fram vantrauststillaga á hana. „Ég er bara hræddur um að skaðinn sem verkalýðshreyfingin verði fyrir ef við fáum ekki einhverja úrlausn, og það fljótt, verði langvarandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert