Skorti yfirsýn um stöðu geðheilbrigðismála

Þann 25. nóvember 2020 samþykkti Alþingi beiðni um skýrslu frá …
Þann 25. nóvember 2020 samþykkti Alþingi beiðni um skýrslu frá ríkisendurskoðanda um geðheilbrigðisþjónustu í landinu. mbl.is/Hari

„Eftirspurn og þörf fyrir geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi eykst ár frá ári. Þrátt fyrir sókn í málaflokknum er geta stjórnvalda til að tryggja þá þjónustu sem þörf er á undir væntingum og bið eftir þjónustu almennt of löng og ekki í samræmi við markmið stjórnvalda.“

Þetta kemur fram í stjórnsýsluúttekt á geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi sem Ríkisendurskoðun hefur lokið. 

Fulltrúar Ríkisendurskoðunar kynntu skýrsluna á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis fyrr í dag en í úttektinni er fjallað er um stefnu stjórnvalda, skipulag þjónustu, kostnað og árangur í geðheilbrigðismálum.

„Í megindráttum er skipulag geðheilbrigðisþjónustu í samræmi við stefnu stjórn­valda um þrjú þjónustustig og að rétt þjónusta skuli veitt á réttum stað. Það ætti því að vera til þess fallið að stuðla að árangri í málaflokknum. Ákveðnir vankantar eru hins vegar á kerfinu sem draga úr árangri við framkvæmd,“ segir í helstu niðurstöðum úttektarinnar. 

Skráning á beitingu þvingunarúrræða ekki til staðar

Þá segir að íslensk stjórnvöld skorti yfirsýn um stöðu geðheilbrigðismála en upplýsingar um tíðni og þróun geðsjúkdóma liggja ekki fyrir og ekki hefur farið fram greining á þjónustu og mannaflaþörf Landspítala.

Ekki er haldin miðlæg skrá um biðlista og upplýsingar um fjárþörf og raunkostnað geðheilbrigðisþjónustunnar liggja ekki á reiðum höndum.

Tölur um óvænt eða alvarleg atvik við veitingu geðheilbrigðisþjónustu eru ekki með góðu móti aðgengilegar og á það einnig við um fjölda kvartana til embættis landlæknis.

Þá er skráning á beitingu þvingunarúrræða ekki til staðar. Ríkisendurskoðun telur brýnt að bætt verði úr þessu.

Jafnframt þarf að tryggja betur samfellda og samþætta þjónustu með því að auka samvinnu og samhæfingu þjónustuveitenda.

Þá þarf að útrýma gráum svæðum þar sem einstaklingar lenda milli úrræða og fá ekki viðeigandi þjónustu. Mörg þessara svæða eru vel þekkt en illa hefur gengið að fækka þeim.

Vantar 50 stöðugildi hjúkrunarfræðinga 

Að mati Ríkisendurskoðunar þarf að tryggja nægt námsframboð og námsstöður svo vinna megi gegn skorti einstakra fagstétta.

Samkvæmt óformlegu mati Landspítala vantar geðþjónustu spítalans a.m.k. 50 stöðugildi hjúkrunarfræðinga, tíu sérmenntaða geðhjúkrunarfræðinga og tíu geðlækna ásamt fleira fagfólki. 

„Til að ná fram skilvirkni og árangri í geðheilbrigðismálum þarf að vera til staðar skýr framtíðarsýn og markviss stefnumótun. Stefnu stjórnvalda þarf svo að fylgja eftir með aðgerðaráætlun sem felur í sér skýr og vel skilgreind markmið, tímamörk og tilgreinda ábyrgðaraðila.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert