„Óráðlegt að skapa óvissu hjá fyrirtækjum“

Frá skemmtanalífinu í miðborg Reykjavíkur.
Frá skemmtanalífinu í miðborg Reykjavíkur. mbl.is/Ari

Krafa Kolbrúnar Baldursdóttir, oddvita Flokks fólksins, um að finna lausnir á hávaðamengun og sóðaskap í miðbænum hefur vakið umtal, en hún segir borgaryfirvöld ekki sinna þessu máli.

„Ég er sammála því að það er óviðunandi að íbúar þurfi að þola ómenningu og hávaða í miðborginni. Slíkt skerðir lífsgæði fólks. Heimildir eru til staðar og það á að beita þeim. Það þarf því að herða eftirlitið og fylgja því sem þegar er samþykkt,“ segir Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna í borgarstjórn. Hún segir að þrátt fyrir nokkra leit hafi hún ekki fundið tillögu Kolbrúnar frá því í nóvember 2018.

Sýnileg löggæsla hefði áhrif

„Ég hef fengið þær upplýsingar að öllum kvörtunum sem berast til Heilbrigðiseftirlitsins er sinnt en oft berast þær utan vinnutíma og þá tekur lögreglan við.“ Líf bætir við að sumir staðir séu ekki hannaðir fyrir háværa tónlist eða mannfjölda og þá þurfi að gera kröfur um breytingar á þeim og jafnvel stytta opnunartíma staða sem eru mjög nálægt heimilum eða gististöðum, en því þurfi að breyta í skipulagi. Hún bendir einnig á að öflug og sýnileg löggæsla í miðbænum gæti haft jákvæð áhrif.

Næturlífsstjóri ekki lausnin

Hún telur lausnina ekki fólgna í því að búa til „party zone“ í útjaðri byggðar. „Það gæti jafnvel skapað enn önnur vandamál. Mér finnst hins vegar að við ættum að skoða vandlega þau úrræði sem borgin hefur yfir að ráða eða getur fengið með laga- og reglugerðabreytingum svo það sé hægt að uppræta ofbeldi og hávaða þar sem það er mest.“

Lengri umfjöllun um málið er að finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert