Rafbúnaður fannst um borð í flugvélinni, sem brotlenti í Þingvallavatni 3. febrúar, og var hífð upp úr vatninu á föstudagskvöld. Hún var svo flutt í heilu lagi skömmu fyrir miðnætti á föstudagskvöld inn í skýli rannsóknarnefndar samgönguslysa.
Vélin hélst í heilu lagi á meðan aðgerðunum stóð. Þetta segir Ragnar Guðmundsson hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa í samtali við mbl.is.
Hann segir að sjáanlegt ástand vélarinnar hafi verið mjög gott en neðri vélarhlífin hafi þó verið illa skemmd.
„Við færðum hana í heilu lagi inn í skýlið okkar laust fyrir miðnætti á föstudagskvöld. Svo fórum við að vinna í henni á laugardag þar sem það er hætta á því að ákveðnir hlutir fari að tærast. Það var mikið set í vélinni, sem er sandur og leirburður úr vatninu, svo við þurftum að byrja á því að þrífa vélina,“ segir Ragnar.
Hann segir að rafbúnaður hafi fundist í vélinni en tekur fram að hann geti ekki gefið upp hvernig búnaður þetta er; t.d. hvort um snjallsíma, tölvubúnað eða myndavélar sé að ræða. Rafbúnaðurinn sem fannst var komið fyrir í sérútbúnum körfum og haldið í vatni þar sem hann var fluttur til rannsóknanefndarinnar sem fer yfir búnaðinn og athugar hvort hægt sé að nálgast gögn.
Fjölmargir komu að verkefninu á föstudag en um er að ræða samvinnuverkefni lögreglunnar á Suðurlandi, starfsfólks ríkislögreglustjóra, tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og tölvudeildar, slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu, brunavarna Árnessýslu, Landsbjargar og Landhelgisgæslunar.