Allar líkur eru á að lögregla muni flytja alla fanga í handjárnum héðan í frá eftir nýlegt strok frá Héraðsdómi Reykjavíkur, en eins og þekkt er orðið sleit Gabríel Douane Boama sig lausan úr haldi lögreglu í dyragætt Héraðsdóms síðasta þriðjudag og náðist ekki fyrr en aðfaranótt föstudags.
„Fanginn sleit sig lausan frá lögreglu í dyragættinni, þannig að það gafst ekki tóm til að setja á hann handjárn,“ segir Sveinn Ingiberg Magnússon yfirlögregluþjónn á rannsóknarsviði héraðssaksóknara, en Gabríel hefur greinilega beðið færis og slitið sig lausan um leið og tækifæri gafst.
„Almenna reglan er sú að flytja menn í handjárnum. Hins vegar meta þeir sem flytja fanga aðstæður út frá meðalhófi, aðstæðum hverju sinni og fanganum hvort það sé rétt að viðkomandi sé fluttur í handjárnum,“ segir Sveinn. Hann bætir við að þegar viðkomandi sé kominn í dómsal séu handjárn yfirleitt tekin. „Þá er spurningin hvort það eigi að setja þau á hann aftur við flutninginn, eða hvort þess þurfi ekki.“ Í ljósi þess að Gabríel hafði verið ákærður fyrir líkamsrásir og hótanir voru þessi málstilvik afar óheppileg.
Hann bætir við að svona atvik séu að sjálfsögðu tilefni til að endurskoða verkferla og framkvæmd. „Kannski er lærdómurinn hér að við getum ekkert verið að beita neinu meðalhófi við svona flutninga og það sé réttast að hafa alltaf alla í handjárnum svo allt sé tryggt. Það er það sem við erum að fara yfir núna, því við ætlum ekki að lenda í þessu aftur.“