Fæstir bera mikið traust til Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra, eða 17,8%, en flestir bera mikið traust til Ásmundar Einars Daðasonar mennta- og barnamálaráðherra, eða 52,1%, samkvæmt nýrri könnun Maskínu.
Flestir sögðust þó bera lítið traust til Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, eða 70,7% en fæstir sögðust bera lítið traust til Ásmundar Einars.
Aðrir ráðherrar en Ásmundur sem mælast með mikið traust eru Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, með 44,5%, og Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra með 40,7%.
51,3% segjast bera lítið traust til Jóns Gunnarssonar og 52,3% til Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, ráðherra háskóla, iðnaðar og nýsköpunar.
Lilja Alfreðsdóttir menningar og viðskiptaráðherra, Guðlaugur Þór Þórsson umhverfis- og orkumálaráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmálaráðherra mælast öll með svipað mikið traust. Um 30% segjast bera mikið traust til þeirra og rúm 30% lítið.
32,5% svarenda sögðust bera mikið traust til Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra en 38,9% lítið. 31,1% sögðust bera mikið traust til Svandísar Svavarsdóttur landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra en 32,5% lítið.
Hlutfall þeirra sem segjast bera mikið traust til ráðherranna minnkar í öllum tilvikum, mest í tilviki Sigurðar Inga Jóhannessonar, nema hvað varðar Jón Gunnarsson sem stendur í stað, á milli mælinga. Síðast voru þær gerðar í nóvember.
Könnunin nú var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, hóp sem er dreginn af tilviljun úr Þjóðskrá. Hún var framkvæmd 20. til 25. apríl og svöruðu 929 henni.