Helga Vala Helgadóttir formaður þingflokks Samfylkingarinnar segir „allskonar samtöl vera í gangi“ spurð hvort einhver úr ríkisstjórn hafi nálgast flokkinn varðandi mögulegt ríkisstjórnarsamstarf.
Mikil spenna ríkir nú innan meirihlutans í kjölfar þess sem gengið hefur á síðustu vikur. Telja margir ríkisstjórnarsamstarfið vera í hættu vegna þess.
Niðurstaða rannsóknar ríkisendurskoðanda á framkvæmd sölu á 22,5% hluta ríkisins í Íslandsbanka er væntanleg í júní. Eins og fram kemur í grein Morgunblaðsins í dag hefur það verið rætt innan Vinstri grænna og Framsóknar, að reynist niðurstaða ríkisendurskoðanda fjármálaráðherra óhagstæð, sé núverandi samstarf sjálfhætt.
Þá hefur einnig glitt í óánægju innan Framsóknarflokksins vegna skorts á stuðning innan ríkisstjórnar við Sigurð Inga Jóhannsson innviðaráðherra, í kjölfar mikillar umræðu um meiðandi ummæli sem hann lét falla í samkvæmi í tengslum við Búnaðarþingið.
Í samtali við mbl.is segir Helga Vala Samfylkinguna vera reiðubúna til að taka þátt í ríkisstjórnarsamstarfi.
Hefur einhver nálgast ykkur úr ríkisstjórnarflokkunum um mögulegt samstarf?
„Eigum við ekki bara að segja að það séu allskonar samtöl í gangi.“
Halldóra Mogensen þingmaður Pírata hefur sömuleiðis sagt þingflokkinn vera reiðubúinn að skoða þátttöku í eða stuðning við minnihluta stjórn að því skilyrði gefnu að Sjálfstæðisflokknum víki.
„Við erum bara tilbúin til þess að skoða öll stjórnarform sem að innihalda ekki Sjálfstæðisflokkinn. Hvort sem að það sé minnihlutastjórn eða stjórn,“ segir Halldóra í samtali við mbl.is.
Hún segir þó ekkert samtal hafa átt sér stað við ríkisstjórnarflokk um slíkt samstarf.