Notkun geðlyfja umtalsverð á hjúkrunarheimilum

Hjúkrunarheimilið Eir í Grafarvogi.
Hjúkrunarheimilið Eir í Grafarvogi. mbl.is/Sigurður Bogi

Notkun geðlyfja á hjúkrunarheimilum landsins er umtalsverð, segir meðal annars í svari  Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Evu Sjafnar Helgadóttur, varaþingmanni Pírata. 

Eva Sjöfn spurði ráðherra í undirbúnum fyrirspurnum um ýmislegt varðandi lyfjanotkun á hjúkrunarheimilum. Hversu hátt hlutfall fólks á hjúkrunarheimilum hafi fengið geðlyf og hvers sterk svo dæmi sé tekið. 

Fyrirspurnin er þeim annmörkum háð að víndasiðanefnd þarf að gefa leyfi fyrir því að samkeyra upplýsingar úr gagnagrunnum og einnig gæti það fallið undir persónuvernd. Til að gera sérstaka útttekt þá þurfi slík leyfi. 

Ráðherra gaf engu að síður almennar upplýsingar sem gefa vísbendingar um stöðuna.  Greindi hann frá því að ráðuneytið hafi á síðasta ári sent fyrirspurn til hjúkrunarheimila um notkun lyfja eftir lyfjaflokkum fyrir árin 2019 og 2020.

„Verkjalyf (ATC flokkur N02 - öll verkjalyf) voru mest notaði lyfjaflokkurinn og jafnframt sá kostnaðarsamasti eða um 10,5% af lyfjakostnaði þeirra hjúkrunarheimila sem svöruðu fyrir bæði árin. Af öðrum lyfjaflokkum sem falla undir fyrirspurn þessa voru geðrofslyf, svefnlyf og róandi lyf (ATC flokkur N05) næstmest notuð en samanlagður kostnaður vegna þeirra var 9,9% af heildarkostnaði fyrir árið 2019 og 10,6% fyrir árið 2020. Lyfjaflokkurinn (N06) þunglyndislyf, örvandi lyf og lyf við heilabilun stóðu undir um 8,0% lyfjakostnaðar 2019 og 6,9% árið 2020. Notkun geðlyfja á hjúkrunarheimilum er því umtalsverð,“ segir í svari heilbrigðisráðherra. 

Ráðherra vísaði einnig til viðamikillar rannsóknar sem unnin var frá 2003-2018 en greint var frá niðurstöðum hennar í Læknablaðinu 2021. Páll Biering geðhjúkrunarfræðingur og Ingibjörg Hjaltadóttir sérfræðingur í öldrunarhjúkrun gerðu rannsóknina. 

Samkvæmt rannsókninni höfðu 42% fengið þunglyndisgreiningu á hjúkrunarheimilum á Íslandi. Um 70% íbúa voru á einhverjum geðlyfjum og voru þunglyndislyf mest notuð.

Höfundar rannsóknarinnar bentu á í þessu samhengi að þunglyndislyf séu stundum notuð vegna annarra heilsufarsvandamála, s.s. langvarandi verkja, vefjagigtar og svefnvanda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert