Óánægja með þjónustu Reykjavíkurborgar

Minnihluti Reykvíkinga er ánægður með þjónustu sveitarfélagsins.
Minnihluti Reykvíkinga er ánægður með þjónustu sveitarfélagsins. mbl.is

Marktækur munur er á ánægju með þjónustu sveitarfélags eftir búsetu. Ánægja er mun minni í Reykjavík en að jafnaði í öðrum sveitarfélögum.

Þetta kemur fram í fyrri skýrslunni af tveimur sem byggðar eru á niðurstöðum úr Þjóðmálakönnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands um afstöðu íbúa til málefna í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga.

Ánægja íbúa í Reykjavík hefur farið lækkandi

Skýrslan var unnin fyrir Rúnar Vilhjálmsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, en sambærileg könnun var gerð fyrir fjórum árum síðan.

„Ánægjan er mun minni í Reykjavík og hefur reyndar lækkað örlítið frá kosningum 2018,“ segir Rúnar um niðurstöðurnar í samtali við mbl.is.

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar er minnihluti Reykvíkinga frekar ánægðir eða mjög ánægðir með þjónustu síns sveitarfélags eða 42,1% samanborið við 65,8% íbúa í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur og 62,1% íbúa á landsbyggðinni.

Ánægja með þjónustu borgarinnar er þó mismunandi eftir því hver áherslumál borgarbúa eru, að sögn Rúnars.

„Þegar rýnt er nánar í niðurstöðurnar má sjá að þeir sem leggja áherslu á gatna- og vegamál og atvinnumál eru mun óánægðari með þjónustuna. Aftur á móti eru þeir ánægðari sem setja almenningssamgöngur og íþrótta- og tómstundamál á oddinn.“

Íbúar í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur og á landsbyggðinni eru langtum ánægðari …
Íbúar í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur og á landsbyggðinni eru langtum ánægðari með þjónustu sveitarfélags síns heldur en íbúar í Reykjavík. Graf/Háskóli Íslands

Skipulagsmál mikilvægasti málaflokkurinn

Þar að auki segir hann ákveðinn mun vera á afstöðu íbúa til þjónustu borgarinnar eftir því hvaða hópum þeir tilheyra.

„Það kemur í ljós að milli- og hátekjufólk er ekki eins ánægt með þjónustu borgarinnar og lágtekjufólk. Sömuleiðis er gift fólk og fólk í sambúð síður ánægt heldur en þeir sem einhleypir eru. Ánægja með þjónustuna mældist svo minnst hjá þeim íbúum sem eru með framhaldspróf.“

Spurður segir Rúnar það hafa komið sér á óvart hve mikill munur reyndist vera á viðhorfum íbúa innan og rétt utan við borgarmörkin, þ.e.a.s. milli Reykjavíkurborgar og nágrannasveitarfélaga borgarinnar.

„Það er svolítið athyglisvert hvað það eru margir sem leggja áherslu á almenningssamgöngur í Reykjavík miðað við hve lítil áhersla er á sama málaflokk í nágrannasveitarfélögunum. Á móti sjáum við að atvinnumál eru ofarlega á blaði á landsbyggðinni meðan þau virðast skipta minna máli í Reykjavík.“

Hann segir niðurstöður könnunarinnar einnig benda til þess að skipulagsmál séu mikilvægasti málaflokkurinn í borginni.

„Þá erum við að tala um þróun samgöngu- og þjónustukerfis borgarinnar, umhverfismál og þróun byggðar. Þetta eru stærstu málin í aðdraganda kosninganna.“

Íbúar leggja mismikla áherslu á mismunandi málaflokka eftir því hvar …
Íbúar leggja mismikla áherslu á mismunandi málaflokka eftir því hvar þeir eru búsettir. Graf/Háskóli Íslands

Afstöðuleysi kunni að stafa af málefnaóvissu

Niðurstöðurnar samræmist þó rannsóknum sem gerðar hafa verið á viðhorfi íbúa til þjónustu stórborga erlendis, að sögn Rúnars.

„Það er vel þekkt að í stærri sveitarfélögum sé tilhneiging til minni ánægju með borgaryfirvöld og þjónustu borganna. Það stafar líklegast af fjarlægð, minni upplýsingamiðlun og vitund íbúa um málefni og ákvarðanir í borginni.“

Rúnar segir könnunina mikilvæga þar sem hún geti hjálpað bæði stjórnmálamönnum og almennum borgurum að átta sig á því hvernig samsetning viðhorfa íbúa er í þeirra nærsamfélagi.

„Í lýðræðissamfélagi viljum við að stjórnmálin endurspegli almenn viðhorf. Okkur hefur skort upplýsingar af þessu tagi í síðustu kosningum. Kannanir sem gerðar hafa verið á því hvaða lista fólk ætli að kjósa hafa leitt í ljós hvað margir hafa ekki tekið afstöðu. Það er sérstaklega áberandi í sveitarstjórnarkosningum og kann að stafa af þessari málefnaóvissu.

Hvorki framboð né almenningur gerir sér grein fyrir því hvaða málefni eru sett á oddinn og því fannst mér mikilvægt að leggja meiri áherslu á þau, að þau séu vel kynnt og viðhorf til þeirra líka. Ég er sannfærður um að það sé mikilvægt að koma þessum upplýsingum á framfæri og vonandi hafa þær einhver áhrif á umræðuna sem eftir er fram að kosningum.“

Í upphafi var tekið 1966 manna lagskipt tilviljunarúrtak úr netpanel Félagsvísindastofnunar. Úrtakið var lagskipt eftir kyni, aldri og búsetu til þess að það endurspeglaði sem best samsetningu landsmanna. Gagnaöflun hófst 22. mars 2022 og lauk 18. apríl 2022, en gagnaöflun stóð aðeins lengur yfir en gengur og gerist þar sem senda þurfti fjórar ítrekanir til að ná nægjanlegum fjölda svarenda. Alls svöruðu 808 einstaklingar könnuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert