Stjórnsýsluúttekt sem Ríkisendurskoðun gerði á geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi dregur vel fram stöðuna í geðheilbrigðismálum hér á landi og undirstrikar mikilvægi þess að aðgerðaáætlanir í málaflokknum fylgi stefnumótuninni.
Þetta sagði Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra í samtali við mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi fyrir utan Ráðherrabústaðinn í dag.
Í úttektinni umræddu kemur m.a. fram að þrátt fyrir sókn í málaflokknum sé geta stjórnvalda til að tryggja þá þjónustu sem þörf er á enn undir væntingum. Bið eftir þjónustu sé almennt of löng og ekki í samræmi við markmið stjórnvalda.
Spurður sagði Willum nú þegar margt verið að gera til þess að bæta stöðuna. Hann sé til að mynda búinn að leggja stefnumótun í geðheilbrigðismálum fyrir þingið.
„Henni mun fylgja aðgerðaáætlun sem miðar m.a. að því að koma fólki nær úrræðunum og að það komist fyrr að.“
Samkvæmt óformlegu mati Landspítala vantar geðþjónustu spítalans a.m.k. 50 stöðugildi hjúkrunarfræðinga, tíu sérmenntaða geðhjúkrunarfræðinga og tíu geðlækna ásamt fleira fagfólki.
Inntur eftir því sagðist Willum vera vel meðvitaður um mönnunarvandann í stéttinni, sem virðist því miður ekki fara batnandi miðað við frásagnir þeirra heilbrigðisstarfsmanna sem mbl.is hefur rætt við.
„Auðvitað hefur maður bara alltaf áhyggjur af stöðunni því það er skortur á starfsfólki í heilbrigðisþjónustu og mikil samkeppni um vel hæft fólk.“
Willum sagði kjör og aðbúnað eðlilega vera mjög stór atriði í þessari umræðu. Auk þess sé það vel þekkt í hvaða farvegi kjarasamningar eru.
„Ég bind auðvitað vonir við það að í næsta skipti náum við farsælum samningum við þetta hæfa starfsfólk sem við þurfum svo sannarlega að fjölga í þessum stéttum. Þar erum við að horfa til lengri tíma í gegnum landsráð og í gegnum menntaráðið.“
Kemur til greina að einfaldlega veita Landspítalanum aukið fjármagn til þess að hækka laun starfsmanna í þessari stétt?
„Við höfum auðvitað brugðist við þessari stöðu með ýmsum hætti og með átaksverkefnum til þess að komast í gegnum svona álagstímabil.“