Sérstakur starfshópur verður stofnaður um endurskoðun skattmatsreglna en þar verður m.a. kveðið á um endurskoðun og einföldun reglna um reiknað endurgjald í eigin atvinnurekstri og samspil við skattlagningu á hagnað og arð sem og skattmat vegna hlunninda og úttekta eigenda úr félögum.
Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra við fyrirspurn Jóhanns Páls Jóhannssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, um endurskoðun skattmatsreglna.
Jóhann spurði m.a.: „Með hvaða hætti verða skattmatsreglur endurskoðaðar á kjörtímabilinu, sbr. fyrirheit í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar?“
Í svari Bjarna kemur fram, að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segii orðrétt: „Skattmatsreglur verða endurskoðaðar og komið í veg fyrir óeðlilega og óheilbrigða hvata til stofnunar einkahlutafélaga.“
Hér sé bæði átt við skattmat á hlunnindum og reglur um reiknað endurgjald sem geti falið í sér hvata sem stríði gegn meginmarkmiðum um einfalda og skilvirka skattframkvæmd og sanngirni í skattlagningu.
„Annars vegar hefur borið á því að þeim sem reikna sér endurgjald þyki reglurnar vera flóknar og erfiðar í framkvæmd. Hins vegar er brýnt að tryggja jafnræði í álagningu skatta og koma í veg fyrir undanskot,“ segir í svari fjármálaráðherra.
Jóhann Páll spurði ennfremur: „Hvaða „óeðlilegu og óheilbrigðu hvatar til stofnunar einkahlutafélaga“ eru í íslensku lagaumhverfi, sbr. umfjöllun í stjórnarsáttmála?“
Fram kemur í svari Bjarna, að gætt hafi tilhneigingar til þess að þeir sem telji fram launatekjur á grundvelli reiknaðs endurgjalds gangi út frá lægstu viðmiðunum sem reglurnar heimili og greiði sér í ríkari mæli út hagnað eða arð af rekstri. Af því leiði að þeir sem telji fram lægra reiknað endurgjald en rétt mætti telja að séu tekjur þeirra í reynd greiða lægri tekjuskatt til ríkissjóðs en þeir sem starfa hjá ótengdum vinnuveitendum. Lægri reiknuð laun þýði enn fremur að greitt sé lægra tryggingagjald og iðgjald til lífeyrissjóðs en ella væri.
Þá segir í svarinu, að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sé nú gert ráð fyrir því að reglur um reiknað endurgjald í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi aðila í eigin rekstri verði endurskoðaðar á kjörtímabilinu og leitað nýrra leiða til að varna mismunun í skattlagningu.