Eins og nemendurnir væru nýstignir upp úr sundlaug

„Það er mikil vinna frá þeim sem er mögulega glötuð …
„Það er mikil vinna frá þeim sem er mögulega glötuð ef tölvurnar eru farnar,“ segir Vigdís. Ljósmynd/LHÍ

„Gífurlegt“ vatnsmagn barst frá brunavarnakerfi á annarri hæð byggingar Listaháskóla Íslands í Þverholti síðdegis í gær, svo mikið raunar að nemendur sem voru undir úðurunum urðu algjörlega rennvotir. Vatnið lak á milli hæða og mögulega hafa einhver hugverk nemenda glatast.

„Nemendur voru að vinna og það varð í raun bara slys. Úðarinn fór af stað og það var gífurlegt vatnsmagn sem kom úr honum sem gerði það að verkum að önnur hæðin hjá okkur fylltist eiginlega bara af vatni,“ segir Vigdís Másdóttir, kynningarstjóri LHÍ, í samtali við mbl.is.

Slökkviliðið reyndi að þurrka eins mikið upp og hægt var og í kjölfarið tók þrifaþjónusta við. Nú eru í gangi blásarar á hæðinni.

Mikil vinna sem er mögulega glötuð

Tjónið hefur ekki verið metið.

„Það er mikil vinna frá þeim sem er mögulega glötuð ef tölvurnar eru farnar,“ segir Vigdís.

Aðallega voru það nemendur í vöruhönnun sem lentu í óhappinu en Vigdís segir að blessunarlega hafi flest útskriftarverkefnin sloppið frekar vel þó spurning sé um það hvort eitt eða tvö verkefni hafi orðið fyrir tjóni. Einungis tæpur mánuður er í útskrift nemenda.

Spurð um vatnsmagnið sem kom frá úðaranum þá segir Vigdís í það minnsta greinilegt að hann gæti tekið vel á eldi.

„Það var eins og þau sem sátu undir úðaranum væru nýstigin upp úr sundlaug.“

Ekki verður kennt á hæðinni í dag og mun fundur vera haldinn með nemendunum. Þar verður farið yfir stöðuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert