„Ég hafði reyndar ekki heyrt af þessu en þetta eru bara leiðinleg mistök sem verða lagfærð,“ segir Svanur Geir Bjarnason, svæðisstjóri hjá Vegagerðinni, í samtali við Morgunblaðið.
Vegfarendur um Þorlákshafnarveg hafa tekið eftir því að eitthvað er bogið við annað skiltið sem vísar þeim inn á Eyrarbakka. Á skiltinu stendur að 12 kílómetrar séu inn á Eyrabakka en þann stað er hvergi að finna. Ljóst er að Eyrbekkingar hafa verið sviknir um eitt „r“ í nýlegum endurbótum á veginum. „Þetta hefur gerst áður, því miður. Einhvern tímann vísaði skilti að Strandakirkju í stað Strandarkirkju,“ segir Svanur.
„Ég keyri nú fram hjá þarna minnst tvisvar á dag og verð að viðurkenna að ég hef aldrei rekið augun í þetta,“ segir Elliði Vignisson, sveitarstjóri í Ölfusi.
„Þetta skráist á Vegagerðina sem sér um þennan veg. Auðvitað er þarna illa vegið að vinum okkar á Eyrarbakka en við erum hins vegar þakklát fyrir þær vegabætur sem þarna voru gerðar. Þær auka stórlega umferðaröryggi þeirra sem fara hér um. Hvað skiltið varðar kemur þetta auðvitað illa við þá sem eru verst settir af réttritunarblæti en við hin höfum lifað þetta ágætlega af,“ segir Elliði í gamansömum tón.