FÍN segir grafalvarlega stöðu uppi

Garðyrkjuskólinn hefur í áratugi ræktað suðrænar plöntur, m.a. bananaplöntur í …
Garðyrkjuskólinn hefur í áratugi ræktað suðrænar plöntur, m.a. bananaplöntur í einu gróðurhúsanna. Ljósmynd/Árni Sæberg

Félag íslenskra náttúrufræðinga (FÍN) skorar á Alþingi, stjórnvöld, rektor LBHÍ og skólameistara FSu um að „hysja upp um sig buxurnar og ganga frá yfirflutningnum frá LBHÍ til FSu svo sómi sé að“.

Í tilkynningunni er lýst miklum áhyggjum af ákvörðun Lilju Alfreðsdóttur, fyrrverandi menntamálaráðherra, sem tekin var á Þorláksmessu árið 2020, að færa Garðyrkjuskólann að Reykjum, sem er á vegum Landbúnaðarháskóla Íslands, til Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi án þess að ræða flutninginn á Alþingi.

Framtíð skólans óljós

Rektor LBHÍ og skólameistara Fsu var falið að komast að samkomulagi um flutninginn en drög að samningi um það dagaði uppi síðastliðinn vetur og er því óljóst hvernig verður staðið að flutningnum, samkvæmt tilkynningu þar sem segir einnig:

„Það vekur furðu að garðyrkjunám við Garðyrkjuskólann sé auglýst í gegnum FSu án þess að formlegur samningur liggi fyrir um yfirfærsluna. Einnig hefur rektor LBHÍ ákveðið, í gær, þrátt fyrir að enginn samningur um yfirflutning námsins frá LBHÍ yfir til FSu liggi fyrir, að leggja niður störf allra sérfræðinga sem starfa við kennslu við Garðyrkjuskólann. Þess má geta að með þessu er ekki tryggt að skólameistari FSu geti ráðið þessa einstaklinga til sín. Það er engin trygging fyrir því að þeir starfsmenn sem sagt var upp muni sækjast eftir starfi hjá FSu og skólameistara FSu er óheimilt að ráða þessa einstaklinga í stöður hjá FSu án auglýsingar.“

„Það er því grafalvarleg staða uppi. Garðyrkjunámið er orðið að bitbeini, líklega tveggja núverandi ráðherra og rektors og skólameistara skólanna.  Á meðan líður starfsemin fyrir það, nemendur og starfsfólk Garðyrkjuskólans einnig. Á þessari stundu er framtíð Garðyrkjuskólans óljós með öllu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert