Kænugarður á horni Garðastrætis og Túngötu

Samþykkt var á fundi skipulags- og samgönguráðs að kenna torgið …
Samþykkt var á fundi skipulags- og samgönguráðs að kenna torgið við Kænugarð. mbl.is/​Hari

Torgið á horni Garðastrætis og Túngötu verður framvegis kennt við Kænugarð/Kýiv, höfuðborg Úkraínu, en það var samþykkt einróma á fundi skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar í morgun. Jafnframt var samþykkt að undirheitið verði Kýiv-torg, samkvæmt óskum. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Í greinargerð með tillögunni kemur fram að mikill vilji sé til að sýna samstöðu með úkraínsku þjóðinni í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. Fram hafi komið hugmyndir um að endurnefna götur á borð við Garðastræti og Túngötu í þeim tilgangi.

„Eftir skoðun þykir rétt að leggja til að torgið á norðausturhorni beggja þessara gatna, Garðastrætis og Túngötu, verði kennt við Kænugarð eða Kýiv. Nafnið „Kænugarður“ vísar sögulegs nafns borgarinnar á íslensku og undirstrikar yfir árþúsunda langa sögu hennar. Þá skapar heitið ákveðin hughrif þar sem að torgið er um leið garður,“ segir í greinargerðinni.

Staðsetningin viðeigandi

Eyþór Laxdal Arnalds, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins segir Reykjavík með þessu senda skýr skilaboð um stuðning við úkraínsku þjóðina og um leið minna á ævaforna tengingu á milli Íslands og Kænugarðs.

„Staðsetningin er viðeigandi við horn Garðastrætis og Túngötu en við þær götur eru einmitt skrifstofur og sendiráð erlendra ríkja,“ segir Eyþór.

Í greinargerðinni kemur einnig fram að hlustað hafi verið á óskir um að úkraínska nafnið Kýiv verði notað. Eðlilegt þyki að koma til móts við þau sjónarmið en Kýiv-nafnið sé þekkt alþjóðlega. Því var lagt til að notast yrði við tvöfalt heiti Kænugarður/Kýiv-torg á íslensku en Kyiv Square og sambærileg heiti á öðrum tungumálum.

Tillögunni hefur verið vísað til borgarráðs og enn fremur hefur umhverfis- og skipulagssviði verið falið að hefja undirbúning að gerð skiltis fyrir torgið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert