Fjórum kennurum Garðyrkjuskólans á Reykjum var sagt upp í gær að sögn Guðrúnar Hafsteinsdóttur, þingmanni Sjálfstæðiflokksins. Hún gagnrýndi ríkisstjórnina harðlega í dag á Alþingi vegna þessa.
Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, gagnrýndi einnig stjórnvöld fyrir að flytja skólann til Fjölbrautaskólans á Suðurlandi og segir að ríkisstjórnin hafi gleymt að flytja fjármuni til FSu.
„Það gleymdist að undirbúa yfirfærsluna og ganga frá lausum endum og nú er allt í uppnámi fyrir næsta skólaár.“
„Kennurum og fulltrúum kennsluskrifstofu hefur verið sagt upp og deilur eru milli ráðuneyta um hver eigi að gera hvað. Eftir standa starfsmenn með uppsagnarbréf í höndunum og ótrygg réttindi, í óvissu og með svikinn loforð ráðherra,“ segir Oddný.
Guðrún segir ríkisstjórnina hafa með þessum uppsögnum kastað fyrir róða 155 ára starfsreynslu að garðyrkju og skógrækt.
„120 nemendur eru í óvissu. Það er þyngra en tárum takið hvernig stjórnvöld hafa leyft sér að láta þennan mikilvæga skóla og þetta mikilvæga nám verða hornreka í íslensku menntakerfi.“
„Hvernig í ósköpunum gat þetta gerst?“ spyr Guðrún.
Hún segir alla þingmenn Suðurkjördæmis, utan Framsóknarflokksins, hafa lagt þingályktunartillögu um það að gera skólann að sjálfstæðri stofnun.
„Það er nauðsynlegt að renna styrkum stoðum undir garðyrkjuskólann sem sjálfseignastofnun með þjónustusamning við ríkið. Við megum ekki láta það gerast að garðyrkjunám á Íslandi sé að líða undir lok.“