Fjórtánda ár strandveiða hefst á mánudag og er búist við að allt að 700 bátar verði á strandveiðum í kringum landið í sumar. Aflaverðmæti strandveiðiaflans var í heild um fjórir milljarðar á síðasta ári.
Alls eru tíu þúsund tonn af þorski nú í strandveiðipottinum, þar af 1.500 tonn sem matvælaráðherra bætti við nýlega, en í aflamarskerfum voru heimildir í þorski skertar á milli fiskveiðiára. Til samanburðar má nefna að þorskveiðiheimildir Samherja og Útgerðarfélags Akureyringa voru í upphafi þessa fiskveiðiárs samtals tíu þúsund tonn, samkvæmt yfirliti á vef Fiskistofu.
Hlutfall strandveiða af leyfilegum heildarafla þorsks nemur nú 4,5% og hefur svo stórum hluta aflans ekki áður verið úthlutað til strandveiða. Síðasta ár var það stærsta á strandveiðum frá uphafi.
Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, fagnar því að bætt hafi verið við heimildir til strandveiða í sumar. Hann gerir sér vonir um að heimildir í þorski verði enn auknar þannig að tryggt verði að allir strandveiðibátar geti veitt í 48 daga.