Tímamót í Bláfjöllum

Einar Bjarnason rekstrarstjóri í Bláfjöllum lætur til sín taka í …
Einar Bjarnason rekstrarstjóri í Bláfjöllum lætur til sín taka í morgun. Ljósmynd/Skíðasvæðin

Fyrsta skóflustungan fyrir stólalyftu var tekin í Bláfjöllum í morgun en í nóvember voru kynnt áform um uppbyggingu á skíðasvæðinu samkvæmt samkomulagi Samtaka sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. 

Einar Bjarnason rekstrarstjóri í Bláfjöllum og starfsmaður til margra ára tók fyrstu skóflustunguna. 

Hljóðið var gott í Magnúsi Árnasyni framkvæmdastjóra skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins þegar mbl.is heyrði í honum í dag. 

„Þetta er mikill gleðidagur. Loksins, loksins. Ég held að það megi segja að við höfum unnið markvisst að uppbyggingu frá árinu 2010 en á þeim tíma snérist það mest um snjóframleiðslu. Framkvæmdir sem þessar voru samþykktar árið 2018 en fyrst nú erum við að sjá framkvæmt. En fyrir því eru svo sem margar ástæður.  Loksins erum við farin af stað og ekki er hægt að stoppa okkur héðan af,“ sagði Magnús léttur en framundan er mikil vinna í sumar. 

„Í sumar verða verulega miklar framkvæmdir vegna þess að tvær lyftur verða reistar í sumar og önnur þeirra verður örugglega tekin í gagnið fyrir næsta vetur og hin þá væntanlega ári síðar. Við tökum þessu fagnandi,“ sagði Magnús ennfremur.  

Frá skíðasvæðinu í Bláfjöllum.
Frá skíðasvæðinu í Bláfjöllum. mbl.is/Óttar

Athygli er vakin á tímamótunum á Facebooksíðu skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins. „Eftir margra ára bið er loksins byrjað á fyrsta áfanga á uppbyggingu í Bláfjöllum. Fyrsta skóflustunga fyrir stólalyftu á suðursvæðinu,“ segir í færslunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert