Nýlega blómstraði blæösp í garði á Egilsstöðum og er þetta í þriðja skipti sem ræktuð blæösp hefur náð að blómstra á Íslandi svo vitað sé. Blómgun villtrar blæaspar hefur aldrei verið skráð hér á landi.
Frá þessu greinir Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri á heimasíðu Skógræktarinnar. Í pistli hans segir að mynd sem Sigrún Þöll Hauksdóttir Kjerúlf, kennari á Egilsstöðum, birti á Facebook af blómstrandi blæösp hafi vakið athygli hans. „Þessi atburður var svo merkilegur að skógræktarstjóri fór á stúfana og skoðaði blæaspir í trjásafninu á Hallormsstað og þær villtu í Egilsstaðaskógi til að kanna hvort þær blómstruðu. Svo reyndist ekki vera,“ skrifar Þröstur.
Við skoðun á öspinni hafi komið í ljós að hún reyndist vera karlkyns, sem sást á því að frjóduft hristist úr mjúkum reklunum í blænum. Öspin var keypt á sínum tíma í gróðrarstöð, annaðhvort í Kjarna eða á Vöglum, og gróðursett í garðinn sunnan við húsið árið 1982. Þar hefur hún dafnað vel síðan.
„Blómgun trjáa stjórnast að mestu leyti af hitafari sumarsins áður. Blæösp er aðlöguð mun hlýrri sumrum en Ísland hefur yfirleitt að bjóða og nær því (nánast) aldrei að blómstra. Í fyrra var óvenjuhlýtt og sólríkt á Austurlandi, líkt og var 1955 og (sennilega) 1980 á Norðurlandi. Það dugði samt ekki fyrir blæaspir á Héraði yfirleitt. Í viðbót þurfti vaxtarstað sunnan við hús í skjólgóðu umhverfi og fullri sól,“ skrifar skógræktarstjóri. aij@mbl.is