Fleiri pottar og hátt stökkbretti

Ýmsar hugmyndir hafa verið uppi um endurbætur eða breytingar á …
Ýmsar hugmyndir hafa verið uppi um endurbætur eða breytingar á áhofendapöllunum við Laugardalslaug, svo þar megi koma fyrir til dæmis veitingaaðstöðu eða slíku. Einnig er rætt um menningarhús og bókasafn. mbl.is/Sigurður Bogi

Alls hafa borist um 1.100 tillögur í hugmyndasamkeppni á vegum Reykavíkurborgar um endurgerð Laugardalslaugar, en miklar endurbætur á mannvirkinu og umhverfi þess standa nú fyrir dyrum. Þess er vænst að að lokinni hönnun, meðal annars út frá þeim hugmyndum sem komnar eru, megi hefja framkvæmdir í Laugardal á næsta ári, segir Árni Jónsson forstöðumaður.

Sundlaugarnar eru sérkenni Íslands

Dýfingalaug og heimsins hæsta stökkbretti, fjölgun heitra og kaldra potta með misjöfnu hitastigi, busllaug með öldum og yfirbyggð kennslulaug. Stólar og sólbekkir með vatnsnudd, fossa og bunur. Barnalaugar og rennibrautir í ýmsum útgáfum. Þetta er meðal hugmynda sem borist hafa í samkeppnina, sem lauk formlega í síðasta mánuði enda þó enn sé svigrúm til að leggja orð í belg. Leitað var eftir sjónarmiðum gesta í Laugardalslaug og annarra sem nýta sér þjónustuna, svo sem fulltrúa skóla, íþróttafélaga og annarra slíkra.

Verkefnið verður að skoðast í stóru samhengi við umhverfið í …
Verkefnið verður að skoðast í stóru samhengi við umhverfið í Laugardal; einstakt gróið svæði í miðri borg, segir Árni Jónsson í viðtalinu. mbl.is/Sigurður Bogi

„Sundlaugar eru sérkenni Íslands og einstakir staðir. Heilsulindir en líka alveg magnað fyrirbæri viðvíkjandi félagsauði og því að mynda tengsl milli fólks,“ segir Árni Jónsson. Hann kom til starfa við sundlaugina fyrir um ári og hefur síðan tekið þátt í forsagnarvinnu vegna endurgerðar laugarinnar sem hefur verið á dagskrá í nokkur ár. Reykjavíkurborg hefur þegar tekið frá 2,5 milljarða króna í verkefnið, en líklega þarf að kosta meiru til.

Áhorfendastúkan aldrei nýst sem skyldi

Laugardalslaug var tekin í notkun árið 1968, en miklu hefur verið bætt við síðan. Á svæðinu eru í dag þrjár laugar, einnig heitir pottar, eimbað og 86 metra löng rennibraut. Ker stóru útilaugarinnar er í dag orðið úr sér gengið sem og lagnavirki þess. Einnig áhorfendastúkan sem setur sterkan svip á sundlaugarsvæðið, en undir henni voru búningsklefar og afgreiðsla laugarinnar forðum daga.

Segja má stúkan, sem Einar Sveinsson arkitekt hannaði, hafi aldrei nýst sem skyldi. Ekki hefur verið sinnt um viðhald hennar í áraraðir og nú nýtist hún aðeins sem skjólveggur gegn norðanáttinni. Steypan í stúkunni er farin að láta mjög á sjá og trjágróður er jafnvel farinn að skjótast upp úr mosagró í fosssprungnum múrnum

„Ýmsar hugmyndir hafa verið uppi um endurbætur eða breytingar á stúkunni, svo þar megi koma fyrir til dæmis veitingaaðstöðu, setustofu eða öðru slíku. Þá hefur verið í umræðu að endurbyggja þannig að færa starfsemi menningarhúss Borgarbóksafns hingað úr Sólheimum,“ segir Árni.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert