„Upplýsingastríð Rússa gegn frjálslyndum og lýðræðislegum löndum hefur aukist mikið. Þó ég viti að Ísland sé ekki beint skotmark eins og er, þá geta sæstrengir tengdir Evrópu og Bandaríkjunum orðið beint skotmark Rússa,“ segir Dr Josef Schroefl, leiðandi sérfræðingur hjá Evrópska öndvegissetrinu um fjölþáttaógnir í Helsinki.
Í morgun stóð utanríkisráðuneytið fyrir ráðstefnu um áhrif breytts öryggisumhverfis í Evrópu á netöryggi og -varnir og í kjölfarið talaði Dr Josef við blaðamann mbl.is.
Dr Schroefl segir að það sé ekki nóg að hið opinbera og herir landa vinni gegn netárásum heldur verði einkageirinn að vera með, en það var meðal annars það sem rætt var um á fundinum í dag.
„Allar stærstu netárásir síðustu ára hafa verið tengdar Rússlandi,“ segir Dr Josef.
„Vandamálið við netárásir og upplýsingastríð er hvernig eigi að refsa fyrir það. Það er aldrei hægt að sjá hundrað prósent hvaðan árásirnar koma og hvaða lönd eru á bak við þær.“
„Síðustu tíu ár beindust spjót Rússa að eigin borgurum með því að dreifa röngum upplýsingum um Úkraínu og vesturlönd og að NATO myndi vilja ráðast á Rússland. Í upphafi innrásirnar í Úkraínu virtist vera að sýndarhermenn (e. cyber warriors) Rússlands hefðu þagnað. Svo var ekki. Þeir færðu skotmörk sín annað.“
„Eftir innrásina fóru Rússar að einbeita sér að því að dreifa röngum upplýsingum í löndum Arabíu, í Afríku og í Asíu. Því miður þá virðast aðgerðirnar hafa borið árangur til dæmis með nýjum Twitter aðgöngum frá þessum löndum sem sýna Pútín stuðning.“