Lilja Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra segir að lágmarkskröfur til fjárfesta, vegna sölu á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka, hafi verið ræddar í ráðherranefnd áður en útboðið fór fram. Aftur á móti hafi ráðherrar verið fullvissaðir af Bankasýslunni að þessi framkvæmd væri í fullu samræmi við alþjóðleg viðmið.
Þá segir hún málefnalegar umræður hafa farið fram innan ráðherranefndar fyrir útboðið. Þetta kom fram í máli hennar í sérstakri umræðu á Alþingi í dag um söluna á Íslandsbanka.
Oddný G. Harðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar efndi til umræðunnar og spurði hún ráðherra m.a. að því hvort hún teldi framkvæmd útboðsins hafa verið í samræmi við þær fyrirætlanir sem voru kynntar, hvaða annmarka hún telur hafa verið á sölunni, hvernig brugðist var við athugasemdum hennar sem hún lagði fram í aðdraganda útboðsins og hvort hún telji að fjármála- og efnahagsráðherra hafi axlað pólitíska og lagalegu ábyrgð á sölunni.
Að sögn Lilju var framkvæmd útboðsins að mörgu leyti í samræmi við það útboð sem var kynnt og segir hún markmiðin hafa náðst að einhverju leyti. Nefnir hún til að mynda markmið um dreift eignarhald, að bankinn hafi væri skráður í Kauphöllina og að gott verð hafi fengist. „Það tókst,“ sagði hún.
Annmarkarnir voru aftur á móti þeir að skortur var á upplýsingagjöf til almennings og gagnsæið var óásættanlegt. Sagði hún aðferðafræðina hafa rýrt traust í samfélaginu og taldi hún betra að nota almennaleið.
Hvað varðar ábyrgð fjármála- og efnahagsráðherra sagði Lilja að hann hafi sjálfur viðurkennt að hann beri pólitíska ábyrgð á málinu.