Leystur undan vinnuskyldu eftir viðtal á mbl.is

Gabríel Benjamín hefur starfað á kjaramálasviði Eflingar.
Gabríel Benjamín hefur starfað á kjaramálasviði Eflingar. Samsett mynd/mbl.is

Gabrí­el Benjam­in, starfsmaður á kjara­mála­sviði Efl­ing­ar og trúnaðarmaður VR á vinnustaðnum, hefur verið leystur undan vinnuskyldu á skrifstofunni. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sendi honum sjálf bréf þess eðlis og er ástæðan ummæli sem hann lét falla í samtali við mbl.is fyrr í vikunni.

Gabríel sagðist ótt­ast að launakröf­ur fé­lags­fólks Eflingar upp á tugi og jafn­vel hundrað millj­ón­ir kynnu að falla niður vegna þjón­ustu­skerðing­ar á skrif­stofunni. Þá sagðist hann óviss um hvort hægt yrði að greiða umsóknir úr sjúkra­sjóði nema að hluta um næstu mánaðamót vegna ástands­ins.

„Það var víst of óþægilegt fyrir Sólveigu Önnu að félagsmenn vissu hver staðan væri á skrifstofunni,“ segir Gabríel í samtali við mbl.is.

Ekki hafi verið vísað í nein lög í bréfinu en fram kom að engin stoð hefði verið fyrir fullyrðingum hans í viðtali við mbl.is

Veit ekki hvort hann má fara á skrifstofuna

Gabríel er ennþá trúnaðarmaður starfsfólks Eflingar sem er í VR og mun fá greidd laun á uppsagnarfresti, en starfskrafta hans er ekki lengur óskað á skrifstofunni.

Hann er einn af fáum starfsmönnum sem hefur mætt til vinnu frá því öllum þar var sagt upp fyrr í mánuðinum og ætlaði sér að klára að vinna út uppsagnafrestinn.

„Ég veit ekki hvort þetta felur í sér að mér verði bannað að fara á skrifstofuna eða ekki. Það er ekki ekki komin formleg beiðni um að ég skili lyklum. Þetta er skrýtin staða, en þetta er ákveðin leið til að sparka trúnaðarmönnum út af vinnustað.“

Áður hafði VR mótmælt uppsögn hans og Ölmu Pálmadóttur sem einnig er trúnaðarmaður og sagt þær ólögmætar, að sögn Gabríels.

Ábyrgðin komin yfir á Sólveigu

Gabríel segir nóg að gera á kjaramálasviðinu, líkt og fram hefur komið. Í viðtalinu við mbl.is í vikunni sagði hann 80 til 150 mál bíða afgreiðslu á sviðinu. Aðeins væri verið að veita neyðarhjálp á skrifstofunni og ekki væri hægt að sinna launakröfum, nema um einföld mál væri að ræða.

Hann segir allavega einn starfsmann eftir á sviðinu og einhverjar tímabundnar ráðstafanir hafi verið gerðar, sem hann þekki ekki nógu vel.

„Það er alveg ljóst að það er ekki verið að fullmanna kjaramálasviðið og ég veit ekki til þess að verði hægt að ráðast í mál nema um sé að ræða akút mál.“ 

Hann hafi ekki verið beðinn um að upplýsa aðra um stöðu þeirra mála sem hann var með á sinni könnu. Ef einhver annar eigi að taka við þeim, veit hann ekki hve fljótt það gerist.

„Nú er ábyrgðin komin á hana Sólveigu Önnu, hún sagði á Facebook að allar greiðslur úr sjúkrasjóði myndu berast um mánaðamótin, eins og venjulega. Ég vona að hún hafi rétt fyrir sér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert