Músagangur í LHÍ – vilja ekki nota gildrur

Bygging Listaháskóla Íslands í Laugarnesi.
Bygging Listaháskóla Íslands í Laugarnesi. Ljósmynd/Listaháskóli Íslands

Borið hefur á miklum músagangi í byggingu Listaháskóla Íslands síðustu daga. Þetta staðfestir Vigdís Másdóttir, kynningarstjóri LHÍ í samtali við mbl.is. 

Listaháskóli Íslands hefur ekki átt sjö daganna sæla undanfarið en í fyrra dag varð gífurlegt vatnstjón í byggingu Listaháskólans í Þverholti. Nýjasta áskorun LHÍ er músagangur í byggingu skólans í Laugarnesi þar sem myndlistadeild, sviðslistadeild og listkennsla skólans er staðsett.

Að sögn Vigdísar er nánast um árlegan atburð að ræða. „Það er ekkert óeðlilegt við þetta enda er skólinn staðsettur úti í móa. Við hljótum bara að vera gera svo frábæra hluti fyrst þær vilja alltaf koma til okkar aftur og aftur," segir Vigdís og slær á léttan streng.

Segir Vigdís þetta enn og aftur sýna fram á að Listaháskólinn þurfi betra húsnæði.

Nemendur ósáttir

Í pósti sem barst öllum nemendum skólans kemur fram að um mikinn músagang er að ræða og að hann eigi við um allar hæðir skólans. 

Skólinn hefur brugðist við músaganginum með því að kalla til meindýraeyði og hefur hann komið fyrir gildrum víðsvegar um húsið. Nemendur LHÍ hafa þó lýst yfir óánægju sinni við gildrunnar sem notaðar eru. Er því leitað nýrra leiða til að takast á við mýsnar.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert