Gabríel Benjamin, starfsmaður á kjaramálasviði Eflingar og trúnaðarmaður VR á vinnustaðnum, segir orð Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, um mætingu langtímaveikra á félagsfundi Eflingar í gær vera kaldhæðnisleg og í þversögn við stöðu sína þar sem Sólveig leysti hann undan vinnuskyldu. mbl.is fjallaði um bæði mál í dag.
Að mati Gabríels telst það heldur kaldhæðnislegt að Sólveig tali um að veikt fólk vilji ekki mæta til vinnu en tilkynni síðan sjálfum sér að nærveru sinni á vinnustaðnum sé ekki óskað, þrátt fyrir að hafa verið einn af fáum starfsmönnum sem mætti til vinnu allan tímann eftir að fregnir af hópuppsögnum bárust.
„Ef þú mætir ekki og nýtir veikindaréttinn þá ertu óvinur en ef þú mætir og heldur áfram að vinna þá ertu samt óvinur og þá er þér samt sparkað út.“
Segir Gabríel það ekki passa, miðað við hvað hann heyrði frá umræddum fundi, að það væri búið að snúa úr orðum Sólveigar.
„Þessi ummæli Sólveigar sýna að hún svífst einskis, það snýst alltaf allt um það að gera allt grunsamlegt og síðan verður hún rosa reið þegar fólk minnir hana á það sem hún hefur sagt,“ segir Gabríel um málið.
Aðspurður hver sín skoðun sé á að Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hafi vísað frá tillögu um að fordæma hópuppsagnir á skrifstofu Eflingar á trúnaðarráðsfundi VR í gær segir Gabríel finnast erfitt að tjá sig um málið þar sem hann var ekki á staðnum. Þó tekur Gabríel fram að hann telji það furðulegt að möguleikinn á að fordæma hafi ekki verið ræddur.
„Að mínu mati er það einmitt hlutverk trúnaðarráðs að ákveða hvað á að fordæma og hvað ekki og fyrst að tillagan var lögð fram finnst mér það pínu skrítið að hún hafi ekki verið rædd.“